Fara í efni

UM KONUR OG KARLA Í FÆÐINGARORLOFI

22. september síðastliðinn var viðtal við þig sýnt í fjölmiðlum, þess efnis að feður hefðu ekki jafnan rétt á við mæður að sækja styrki úr Fæðingarorlofssjóði. Allar þær lagagerðir sem ég hef lesið benda til þess að kynin hafi jafnan rétt til styrkstöku. Gætir þú kannski frætt mig um þetta mál? Kærar þakkir fyrirfram.
Brynja Halldórsdóttir

Komdu sæl Brynja og þakka þér bréfið. Það er rétt hjá þér að feður og mæður hafa jafnan rétt til þess að sækja greiðslur í Fæðingarorlofssjóð. Ég var hins vegar að fjalla um Fjölskyldu- og styrktarsjóð BHM, BSRB og KÍ í fyrrnefndu viðtali. Þegar fæðingarorlofslögunum var breytt árið 2000 ( þau tóku gildi í ársbyrjun 2001) stóð í stappi vegna réttinda sem opinberir starfsmenn nutu.
Þau réttindi áttu stoð í lögum sem upphaflega voru sett árið 1954. Sá háttur var hafður á fyrr á tíð að yfirleitt var samið um réttindi opinberra starfsmanna og þau síðan lögfest. Enn eimir eftir af þessu og má þar nefna lífeyrisréttindi. BSRB kom að fæðingarorlofslögunum 1954 og öllum breytingum sem síðar voru gerðar á fæðingarorlofsrétti opinberra starfsmanna. Með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá árinu 1996 var byrjað að feta inn á nýjar brautir og skyldi nú stefnt að því að færa ýmis réttindi opinberra starfsmanna yfir í kjarasamninga. Þar á meðal var fæðingarolrofsrétturinn. Enda þótt með Fæðingarorlofssjóði kæmi mikil réttarbót fyrir foreldra hefðu konur innan hins opinbera orðið fyrir nokkurri skerðingu á fyrstu mánuðum fæðingarorlofsins ef þeirra gamli réttur hefði einfaldlega verið felldur brott.  Úr hinum nýja Fæðingarorlofssjóði fá foreldrar 80% af heildarlaunum en 100% samkvæmt fyrra fyrirkomulagi á fyrstu þremur mánuðum fæðingarorlofs. Þessu vildum við ekki sleppa og sömdum um að tiltekinn hluti af framlagi sem rynni til svokallaðs Fjöskyldu- og styrktarsjóðs ( ígildi sjúkrasjóðanna hjá ASÍ )  yrði notað til að standa straum af kostnaði við þessi réttindi kvenna - karlar nutu aldrei þessara réttinda.
Nokkrir karlar í opinberri þjónustu vilja  ekki una þessari niðurstöðu og telja hana vera brot á jafnréttislögum. Við sem erum í stjórn sjóðsins teljum hins vegar ekki svo vera. BSRB, BHM og KÍ studdu af alefli að karlar fengju notið fæðingarorlofsréttar í hinum nýja Fæðingarorlofsjóði. Við fögnuðum hins vegar sigri þegar við gátum tryggt að mæður héldu sínum gömlu réttindum jafnframt því að þeim var tryggð enn frekari réttarbót.
Vert er að hafa í huga að naumt er skammtað í Fjölskyldu- og styrktarsjóð BHM, BSRB og KÍ. Ef karlar krefjast greiðslna úr honum til jafns við konur er hætt við að skerða þurfi greiðslur til mæðranna. Það viljum við ekki að gerist.
Með kveðju,
Ögmundur