Fara í efni

SAMFYLKINGIN OG EINKAVÆÐINGIN

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, kom fram í fréttum RÚV í kvöld vegna uppsagna starfskvenna í símaupplýsingum fyrirtækisins Já en það var áður hluti Landssímans. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gagnrýndi uppsagnirnar og kvaðst einmitt hafa búist við uppsögnum í kjölfar einkavæðingarinnar.
Á lokametrunum í einkavæðingarferli Símans var Samfylkingin andvíg því að aðskilja ekki grunnetið og Símann en flokkurinn var því hins vegar fylgjandi að Síminn yrði seldur, þá væntanlega með þessum "fyrirsjáanlegu" afleiðingum, sem nú eru að birtast okkur í brottrekstri starfsfólks.
Sannast sagna leið mér hálf illa undir viðtalinu við formann Samfylkingarinnar. Mér hefði fundist smekklegra að þegja. Hvers vegna fréttakonan spurði ekki út í hina hrópandi mótsögn í málflutningi formanns Samfylkngarinnar skil ég ekki. Það hefði verið eðlileg fréttamennska og síðan hefði ekki verið úr vegi að heyra rödd VG, eina flokksins sem alltaf andæfði sölu Símans, meðal annars á þeirri forsendu að það myndi bitna á starfsfólki, einkum utan Reykjavíkursvæðisins.
Sunna Sara