Fara í efni

ÓKEYPIS Í STRÆTÓ - RAUNHÆFUR KOSTUR?

Blessaður Ögmundur.
Ég veit að vinstri grænir hafa mikinn áhuga á að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur hins vegar alls ekki tekist að mínum dómi. En segjum nú sem svo að bæjarfélögunum og þeim sem með þessi mál möndla fyrir þeirra hönd tækist nú að gera úr garði gott leiðakerfi með tíðum ferðum – mundi það eitt og sér duga til að fólk færi að nota almenningssamgöngur í æ ríkara mæli? Það held ég ekki. Ég held að það þurfi um leið að koma íbúum höfuðborgarsvæðisins á bragðið, kenna þeim í bókstaflegum skilningi að nota strætó, og það yrði best gert með því að hafa ókeypis í strætó. Og er ég þá ekki hugsa um einn dag, heldur amk. tíu ár eða svo.
Með þessu móti tækist án efa að ala upp heila kynslóð sem kynntist öllum þeim góðu kostum sem almenningssamgöngur hafa upp á að bjóða og fjöldi fólks færi að hugsa sig tvisvar um, hvort ekki væri nú bara betra að geyma einkabílinn heima og nota strætó amk. til og frá vinnu.
Vafalaust telja margir hugmyndir um ókeypis almenningssamgöngur út í hött en hafa verður þá í huga að eins og staðan er í dag eru þær þegar reknar með miklum halla. Eins verður að taka mið af þeim gríðarlega kostnaði sem óhóflegur einkabílisminn hefur í för með sér fyrir sveitarfélögin á hverju ári og vísast þá m.a. til gatnakerfisins. Eftir að hafa rennt augunum yfir ársreikninga Reykjavíkurborgar og kostnað borgarsjóðs til að vega upp á móti rekstrartapi strætó get ég ekki annað séð en þessi ábending mín um ókeypis strætóferðir sé ekki alveg út úr kú – eða hvað sýnist þér.
Kveðja,
Þorleifur Óskarsson