Fara í efni

GEFÐU ÞJÓÐÓLFI FRÍ

Ögmundur. Ótrúlegt finnst mér langlundargeð þitt að birta nánast upp á hvern einasta dag skrif nafnleysingjans Þjóðólfs eins og þau eru nú yfirleitt ósmekkleg og leiðinleg. Veit ég að hér tala ég fyrir munn margra. Eins ágæt og þín heimasíða er þá held ég að svona skrif sem þessi nafnleysingi ástundar og tekin eru til birtingar fæli fólk frá síðunni og þar með frá þeim athyglisverðu greinum sem þar er oft að finna. Í Mbl. las ég nýlega ágæta grein eftir þig þar sem tjáningafrelsi, rit- og prentfrelsi kemur ma. við sögu. Var ég málflutningi þínum þar í einu og öllu sammála. Hins vegar finnst mér nafnleysinginn Þjóðólfur oftast stíga langt fram yfir þær skynsamlegu markalínur sem þú dregur í Mbl-greininni. Að þessu sögðu skora ég á þig að gefa þessum Þjóðólfi algert frí frá heimasíðu þinni frá og með deginum í dag.
Kveðja,
Helga K. Gunnarsdóttir

Þakka þér fyrir ábendinguna og hlý orð í garð þessarar heimasíðu. Sannast sagna hefur mér þótt Þjóðólfur oft sjá hliðar á málum sem aðrir koma ekki auga á og oftar en ekki þykja mér skrif hans skondin. Hann er hins vegar eflaust mistækur einsog aðrir. En ég endurtek þakkir til þín fyrir tilskrifið.
Með kveðju,
Ögmundur