Fara í efni

BJÓR. AUGLÝSINGAR, FÍKNIEFNABARÁTTAN OG FORSETI

Sæll Ögmundur.
Nokkur orð til að láta vita af mér eftir langa dvöl á annarri breiddargráðu. Nýkomin aftur var heimilislegt að sjá Ólaf R. Grímsson, forseta Íslands, í ríkissjónvarpinu eins og venjulega umlukinn eða íklæddur  þverstæðum.  Hann er verndari og leggur lið prýðisgóðum málstað, baráttunni gegn fíkniefnum. Actavis styður verkefnið með fjárframlögum en fyrirtækið framleiðir geðdeyfðarlyfin geysivinsælu. Örlítið þverstæðukennt. Strax að loknu viðtalinu við forsetann braut ríkissjónvarpið upp beina útsendingu með auglýsingum sem fer í bága við lög og reglur. Í auglýsingatímanum á eftir forsetaviðtalinu um fíkniefnavá voru síðan tvær bjórauglýsingar, sem líka gagna gegn lögum. Þarna var sem sagt forsetinn að berjast gegn fíkniefnum studdur af lyfjafyrirtækinu í ríkissjónvarpi í sjónvarpsþætti sem þetta kvöldið var borinn uppi af áfengisauglýsingum og allt settið skælbrosandi. Þar sem ég stóð yfir pottunum heyrðist mér liðið vera að bera saman siðferðisleg gildi og lagareglu. Gaman og þverstæðukennt að vera komin heim.
kveðja,
Ólína