Fara í efni

SPURT UM KJÖR ALDRAÐRA

Munið þið reyna að komast í ríkisstjórn í næstu kosningum, og hvað ætlið þið að gera í málum aldraðra?
Ólafía Margrét Ólafsdóttir

Þakka þér þessa fyrirspurn Ólafía. Vinstrihreyfingin grænt framboð reynir við allar aðstæður að knýja á um framgang baráttumála sinna og þar eru málefni aldraðra mjög í forgrunni. Auðvitað er auðveldara að ná sínu fram í ríkisstjórn en utan. Þess vegna viljum við komast í ríkisstjórn.
Við viljum taka á málefnum aldraðra á margvíslegan hátt. Þar vegur þyngst að útrýma biðlistum á dvalarheimilum aldraðra. Þjóðin verður nánast viðþolslaus ef hún þarf að bíða á rauðu ljósi í umferðinni í meira en 20 sekúndur og er þá rokið til og byggð mislæg gatnamót fyrir milljarða. Á sama tíma er aldrað fólk í þrengingum látið bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir húsnæði. Þessari forgangsröð þarf að snúa við.
Þá skiptir kostnaður í heilbrigðiskerfinu aldraða miklu máli og höfum við lagt fram tillögur um að dregið verði úr kostnaði fyrir aldraða, til dæmis varðandi tannlæknaþjónustu, lyf og annað. Hér hefur Þuríður Backman alþingismaður og fulltrúi okkar í heilbrigðisnefnd  Alþingis farið fyrir okkur. Þá höfum við viljað endurskoðun á greiðslum til aldrðra úr almannatryggingakerfinu og höfum við einnig lagt fram tillögur um breytingar til bóta. Ég hef vakið athygli á því í blaðaskrifum að ekki hefur einu sinni verið farið að lögum um greiðslur til aldraðra á undanförnum árum. Úr öllu þessu viljum við bæta og munum við berjast fyrir því í stjórnarandstöðu eða - sem væri miklu betra í stjórnarmeirihluta sem ég vona að verði að veruleika eftir næstu kosningar.
Kveðja,
Ögmundur

Hér er grein sem ég skrifaði nylega um þetta málefni : https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/aldradir-a-raudu-ljosi