Fara í efni

LANDAMÆRAGÆSLAN AUKIN

Sæll Ögmundur.
Við hjónin í Snotru hugðust skoða framkvæmdirnar við Kárahnjúka nú í sumar, sem okkur hugnast ekki. Nú hefur Ríkislögreglustjóri gefið út yfirlýsingu samkvæmt  Ríkisútvarpinu svo hljóðandi:
“RíkislögreglustjórI hefur farið fram á aukna landamæragæslu af ótta við að mótmælendur komi hingað til lands frá Skotlandi þar sem fundur leiðtoga 8 stærstu iðnríkja heims fór fram fyrir skömmu. Talið er að lögregla hafi andvara á sér vegna þess að á vefsíðunni http://www.savingiceland.org/ hefur fólk verið hvatt til þess að ferðast til Íslands til að taka þátt í mótmælunum. Á síðunni má m.a. finna ferðaleiðbeiningar fyrir ókunnuga. Auk þess kunna grunsemdir lögreglu að hafa vaknað eftir að blaðamaður Times í Lundúnum rakst á tvo Íslendinga á undirbúningsfundi fyrir mótmælin við leiðtogafund G8 ríkjanna í Skotlandi, þar sem stjórnleysingjar létu mikið fyrir sér fara.”
Á þetta  líka við um okkur Íslendinga sem elskum landið okkar eða bara við útlendinga sem elska íslenska náttúru? Getur þú athugað þetta fyrir okkur áður en við leggum í hann.
Runki frá Snotru og frú.

Ég þakka ykkur hjónum bréfið. Það er sjálfsagt að kanna þessi mál.
Með kveðju,
Ögmundur