ÞIÐ KUNNIÐ ÞAÐ KOMMARNIR BEST, AÐ LJÚGA MARGFALT Í MÁLI OG MYNDUM

Mér var bent á það áðan að þú værir að birta myndir á heimasíðu þinni sem ég tók núna á dögunum á árshátíð Hrútavinafélagsins. Og hvílíkur spuni sem upp úr þér gengur í kringum myndirnar mínar, undir fyrirsögninni: Heimsforystan fest á filmu. Og svo bítur þú höfuðið af skömminni með því að eigna þær allar blaðasnápnum Steingrími Ólafssyni sem ekki þekkir muninn á fallegum hrúti og fljúgandi snjótittlingi, eins og raunar allt of títt er um unga framsóknarmenn nú á dögum. Áður en ég skrifa reikninginn á þig upp á höfundarlaunin vegna myndanna vil ég greina frá því ágæta fólki sem prýðir myndirnar mínar og er á tali við forsætisráðherra sem var heiðursgestur kvöldsins:

Mynd 1. Þar ræðir Bogi Benediktsson á Brúsastöðum, og formaður Hrútavinafélagsins, við Halldór. Vinstra megin við þá glittir svo í Grím Ólafsson bónda á Hruna og landskunnan hrútadómara. Ef svo horft er lengra inn eftir salnum, nánar tiltekið fyrir miðju myndar, má með góðu móti greina í faxið á Guðna Ágústssyni en hann var veislustjóri á hátíðinni og fórst það verk, eins við var að búast, sérlega vel úr hendi.

Mynd 2 (til vinstri á lygavefi þínum). Þar þykist þú sjá Frakklandsforseta og keisara Þýzkalands og frú á tali við Halldór. Rétt er að lengst til vinstri á myndinni er séra Franz Sigurgeirsson prófastur á Míganda, fyrir myndinni miðri er Geirharður Þorsteinsson bóndi á Kreppu, þá Katrín Pálsdóttir í Hálsakoti, sem var, ef ég man rétt, einu sinni fréttamaður á Sjónvarpinu, og svo vitanlega forsætisráðherra (þ.e. Halldór en ekki Katrín).

Mynd 3 (hægra megin á vefnum). Þar uppnefnir þú Kristján Ólafsson bónda á Rauðamýri, og ritara Hrútavinafélagsins, og kallar hann Pútín. Milli Kristjáns og Halldórs má greina baksvipinn á Boga formanni þar sem hann stendur í hrókasamræðum við félaga sína.

Þannig er nú sagan öll í kringum myndirnar mínar og vænti ég þess þú birtir áður langt um líður leiðréttingar mínar og þá allra helst með myndunum sjálfum og stundir í það sinnið ekki neina kommúníska útúrsnúninga. Innheimtu á höfundarlaunum mun ég svo fela lögmanni Hrútavinafélagsins enda sýnist mér það liggja beinast við að þessu sinni.

Virðingarfyllst,
Þórður Bogi Bogason
Áhugaljósmyndari og virkur meðlimur í Hrútavinafélagi Íslands.

Heill og sæll Þórður Bogi.
Enda þótt þú farir með staðlausa stafi og skrif þín séu ámælisverð, svo ekki sé fastar að orði kveðið,  læt  ég hér fylgja slóð á þá frétt sem þú vísar til. Með kveðju, Ögmundur
http://ogmundur.is/news.asp?id=658&news_ID=2188&type=one

Fréttabréf