SKORINORÐ SPURNING

Ert þú á móti Baugsmönnum?
Ólafía Margrét Ólafsdóttir

Stutt og skorinorð spurning. Hún barst mér 1. maí og velti ég því fyrir mér hvort tilefni spurningarinnar hafi verið ræður mínar þann dag en þá talaði ég m.a. um vaxandi einokun í efnahagslífinu og völd fjármálamanna í íslensku þjóðfélagi. Ég er mjög gagnrýninn á þá þróun, hverjir svo sem í hlut eiga, hvort þeir eru kenndir við Baug eða önnur fyrirtæki skiptir mig engu máli. Opinber starfsemi er einkavædd og fengin fjármálamönnum í hendur. Þar með fá þeir aukin völd. Síðan eru skattar lækkaðir með þeim afleiðingum að þrengt er að hinu opinbera, lýðræðislega kjörnir fulltrúar ráðstafa minna fé fyrir vikið en fjármálamennirnir líkna og lækna, opna styrktarsjóði, gallerí og óperusýningar. Þeirra er mátturinn og dýrðin. Ég er á móti þessu, ekki Baugi sem slíkum. Ef við viljum orða þetta jákvætt þá er ég með lýðræðinu, á móti auðhyggjunni.
Með kveðju,
Ögmundur

Fréttabréf