Fara í efni

NÚ VANTAR ALMENNILEGA SKÝRSLU UM EINKAVÆÐINGU

Þegar gagnrýnisraddirnar gegn einkavæðingarsukki ríkisstjórnarflokkanna gerast háværari forherðast dyggir stjórnarsinnar – einkum og sér í lagi úr röðum Framsóknarflokksins - og mæra auðhyggjuna sem aldrei fyrr. Lengi vel voru það fyrst og fremst Vinstri grænir sem gagnrýndu einkavæðinguna og fór þar saman almenn andstaða gegn henni og þeirri augljósu spillingu sem henni fylgdi. Málflutningur vinstrimanna var afgreiddur sem hvert annað nöldur og öfundarhjal. En nú eru fleiri að átta sig á spillingunni og meira að segja grandvarir íhaldsmenn farnir að tala um “þjóðarrán” enda þótt þeir séu alls ekki andvígir einkavæðingu sem slíkri. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar gera sér grein fyrir því að mikilvægt er að kæfa þessar raddir í fæðingu. Til þess berja þeir öfundar-bumbuna sína áfram en slá einnig á milda og ómþýða strengi gegn uppreisn íhaldsins. Gamalkunnum tónum, sem nú eru slegnir, er ætlað að sýna og sanna að úr því að fræðin segi að allir græði á einkavæðingunni þá skipti aðferðafræðin við hana og söluverð einstakra eigna nákvæmlega engu máli. Þetta nýmixaða tónverk flytur Bergþór Skúlason á netmálgagni Framsóknarflokksins, timinn.is, 6. maí síðastliðinn.

Aðalstefið í verki Bergþórs er að í gósenlandi einkavæðingarinnar séu allir að gera það gott. Allir að græða á tá og fingri, já ekkert síður þú og ég heldur en til að mynda SAMSONARNIR og SÍSONARNIR sem fengu ríkisbankana á silfurfati:

“Hinn stóri hagnaður samfélagsins”, segir Bergþór, “er ekki fólgin í að fá sem hæst verð fyrir fyrirtækið, heldur að tryggja aukna samkeppni. Með aukinni samkeppni fæst bætt þjónusta á sem lægstu verði. Það skapast aukin verðmæti í vaxandi fyrirtækjum sem greiða þá hærri laun og hærri skatta í samneysluna. Í þessum þáttum er að leita hins raunverulega hagnaðar af einkavæðingu. Einkavæðing skilar sér í einhverri mynd til allra í samfélaginu.”

Mikið hljómar þetta nú allt saman kunnuglega; eða hversu oft hefur ekki prófessor Hannes Hólmsteinn bæði sagt þetta og skrifað á undanförnum áratugum. Í ljósi þess er leitt til þess að vita að höfundarrétturinn er ekki virtur viðlits – hvorki neðanmáls né aftan getur Bergþór heimilda og á eftir að koma í ljós hvernig prófessorinn tekur á því þegar um hægist hjá honum fyrir héraðsdómi. Hvað um það, ekki verður af Bergþóri skafið að hann hefur náð afbragðstökum á hugmyndafræði auðhyggjunnar. Hann er með allt á hreinu, segir að einkavæðingarstefnan hafi “almennt tekist vel”, svo vel reyndar að segja megi “að einkavæðing undanfarinna ára sé ein af lykilstoðum undir það langa vaxtarskeið sem íslenskt samfélag hefur verið að ganga í gegnum s.l. 10 ár.

Eins og sjá má eru niðurstöðurnar á tæru en Bergþór kallar eftir opinberum gæðastimpli svo kveða megi gagnrýnisraddirnar í kútinn í eitt skipti fyrir öll. Hann óskar eftir opinberri rannsókn, staðfestu gæðamati á gildi einkavæðingarinnar. Hlýtur ríkisstjórnin að verða við þessu ákalli hans fljótt og vel enda mikið í húfi. Vaknar bara sú spurning hvort ekki sé úr vöndu að ráða að finna almennilegan verktaka í djobbið þegar sá hæfasti, prófessorinn frá Hólmsteini, er vant við látinn að hrekja af sér meintar þjófnaðarsakir fyrir héraðsdómi? Það held ég ekki, sem betur fer eru þeir menn til sem geta leyst hann af hólmi og skilað af sér vel ígrundaðri og vísindalegri skýrslu. Hvernig væri til að mynda að nýi prófessorinn við Viðskiptaháskólann á Bifröst, doktorinn frá Hriflu, taki einkavæðingarskýrsluna að sér? Eftir því sem ég kemst næst er hann kostaður af Framsóknarflokknum og hlýtur því sem slíkur að geta skilað af sér óvilhöllum og vönduðum niðurstöðum.
Þjóðólfur