HUGMYNDIR KOMNAR TIL ÁRA SINNA?

Ég vil spyrja þig Ögmundur hvort þú hafir engar áhyggjur af stöðu Ríkisútvarpsins - og fjáraustri þar á bæ - 3 milljarðar á hverju ári í rekstur útvarpsins. Eins vil ég spyrja þig hvort þú meinir það í fullri einlægni að allir einkamiðlarnir séu að framleiða sama poppið eða hvort verið geti að þetta svar þitt sé komið til ára sinna....kveðja,
Helga Vala           

Þakka þér bréfið sem greinilega eru viðbrögð við grein minni hér á síðunni um Ríkisútvarpið frá 20/5. Mér finnst gott að fá þessi viðbrögð þótt ég sé þeim ekki sammála nema að litlu leyti. En umræðan er gagnleg og bráðnauðsynleg.
Vissulega finnst mér margt gagnrýnivert hjá Ríkisútvarpinu og finnst oft að þar mætti nota peningana miklu betur til framleiðslu og kaupa á vönduðu menningar- og fræðsluefni en gert er. Jafnframt tel ég að fólk eigi að vera miklu kröftugra í aðhaldi gangvart RÚV; halda að stofnuninni meiri uppbyggilegri gagnrýni en tíðkast. Einmitt með þetta í huga finnst mér nauðsynlegt að styrkja þá afstöðu að þetta er stofnun í almannaeigu og almannaþágu. Okkur kemur við það sem þarna gerist og getum fylgt vilja okkar eftir ef við höfum kraft og dugnað til þess.
Á nákvæmlega sama hátt og ég er oft hundóánægður með velferðarþjónustuna í landinu eða ýmsar menningarstofnanir þá er ekki þar með sagt að ég telji að samfélagið eigi að gefa þær frá sér. Það er staðreynd að það kostar mikla peninga að framleiða vandað efni fyrir útvarp og sjónvarp, menningar- og fræðsluefni, tónlist og það er líka staðreynd að minnihlutaáherslum svara ekki aðilar sem þurfa að reiða sig einvörðungu á auglýsingar. Jafnvel í Bandaríkjunum þar sem markaður ætti að vera stór fyrir nánast alla hópa, sækja þeir miðlar sem einvörðungu reiða sig á auglýsingar inn á þau mið þar sem aflast best. Það þýðir áreynslulitla dægurmenningu.
Þegar ég heyri menn eins og Gunnar Smára Egilsson gefa nákvæmlega ekkert fyrir þá kjölfestu sem Ríkisútvarpið óneitanlega hefur verið og er enn, þá get ég ekki orða bundist. Þetta verður mér einnig tilefni til að skoða hvað þessir hvössu gagnrýnendur eru sjálfir að gera; menn sem tala svona digurbarkalega. Ég kemst að þeirri niðurstöðu að flestir haldi þeir sig fremur á öruggu grunnsævinu og hætti sér sjaldan út á djúpmiðin.
Auðvitað er fjöldinn allur af fólki sem starfar í fjölmiðlun að gera ágæta hluti og af metnaði, óháð því hvar það starfar. En það breytir því ekki að mismunandi skipulagsform og peningar skipta máli. Þú veltir því upp Helga Vala hvort mínar hugmyndir séu ekki komnar til ára sinna. Því neita ég ekki. Þær eru hundgamlar. En gætu þær ekki staðist þrátt fyrir það? En nú spyr ég. Gætum við hugsanlega mæst á miðri leið og sammælst um að margt gott sé unnið og gert óháð skipulagsformi og margt lélegt að sama skapi þótt ytri aðbúnaður allur sé góður. Sömuleiðis að gott sé, lýðræðisins og málfrelsisins vegna, að hægt sé að stofna nýja fjölmiðla líki mönnum illa þeir sem fyrir eru. En jafnframt verði að viðurkennast að kjölfesta menningarstofnana á borð við Ríkisútvarpið sé menningunni og samfélaginu nokkurs virði, jafnvel þótt mönnum mislíki, alla vega alltaf öðru hvoru, áralagið hjá ræðurunum á fleyinu. Ég bara spyr.
Ögmundur

Fréttabréf