ER EKKI HÆGT AÐ LYFTA HÆSTVIRTUM FORSETA UPP Á ÖRLÍTIÐ HÆRRA PLAN?

Ég fylgdist með eldhúsdagsumræðunum að venju og hafði bæði gagn og gaman af. Ræðumaður kvöldsins var að mínu mati tvímælalaust Össur Skarphéðinsson og finnst mér sífellt vænna um þann mann, eins og hann fór nú í mínar fínustu hér í denn þegar hann var eins og minkur í hæsnabúi Alþýðubandalagsins sáluga. En erindið var annars ekki að tjá vaxandi væntumþykju mína á Össuri heldur hitt að kvarta undan þeim truflandi bakgrunni sem áhorfendum er boðið upp á þegar sjónvarpað er frá Alþingi. Að baki ræðumanna situr forseti þingsins, Halldór Blöndal, og stundar hann jafnan miklar vangaveltur enda sjálfsagt um margt að hugsa á stóru heimili. Höfuð forsetans gengur frá hægri til vinstri, upp og niður, kollurinn hans er eins og segir í bæninni, "yfir og allt um kring" um höfuð þess þingmanns sem í pontu stendur. Þá skiptir hæstvirtur forseti afar ört um svipbrigði og finnst mér stundum að snöggar skiptingarnar fari eftir því hvernig honum fellur málflutningur þingmanna hverju sinni. Allt þetta truflar mig töluvert og veit ég að svo er farið um marga fleiri. Má ekki leysa þennan bakgrunnsvanda með því að hækka forsetapúltið um sosum eins og einn metra eða jafnvel tvo? Slík lausn væri örugglega öllum að skapi, og einnig hæstvirtum forseta sem og þeim starfsmönnum þingsins sem hjá honum sitja hverju sinni. Núverandi starfsaðstaða þessa fólks - á tímum stöðugra beinna útsendinga frá þinginu - getur vart talist boðleg öllu lengur.
Kveðja,
Hjálmar Þorsteinsson

Fréttabréf