Fara í efni

HERSETAN OG NIÐURLÆGINGIN

Kæri Ögmundur
Ég sé í fréttum að fulltrúar Bandaríkjanna muni koma til landsins í apríl til að ræða við íslensk stjórnvöld um áframhaldandi hersetu á Íslandi. Íslensk stjórnvöld álykta að mikið sé í húfi að halda hersetunni í landinu, þar sem um sé að ræða atvinnusköpun á Suðurnesjum fyrir Íslendinga og telja jafnvel að það væri hagkvæmt að íslenskir skattgreiðendur greiði í það minnsta hluta fjárhagskostnaðar Bandaríkjanna við að halda hernum og skrani hans í landinu. Það er farið að ræða minna um hersetuna í samhengi við varnarmál, enda er flestum háðulegt öfugmæli. Nú skulu bandarískir skattgreiðendur greiða niður atvinulífið með áframhaldandi óþarfa hersetu á Suðurnesjum, og íslenskir skattgreiðendur skulu greiða niður kostnað hersetunnar. Hermangararnir skulu halda áfram braskgróðanum af hermanginu, og laun pólitíkusanna sem standa að þessu furðulega óráði, og skítalyktin, hættan, mengunin og niðurlægingin mun magnast af hersetunni.
Það er ekki hægt að reka sjúkrahús í landinu með sóma, endurhæfinægarstofnanir fyrir minnimáttar, greiða öryrkjum og eldriborgurum mannsæmandi lífeyrir, styðja við íslenskan iðnað, né greiða niður íslenskan landbúnað svo þjóðin haldi sjálfstæði sínu og öryggi. En menn sem eru í stjórn þjóðarinnar og almenningur ætlast til að séu með fullum mjalla, geta látið sér detta í hug, að greiða með og niður erlenda hersetu í föðurlandinu.  Ég meina, hvernig á heilbrigt fólk eiginlega að skilja þetta?
Ég er furðu lostinn yfir þessari niðurlægjandi endaleysu. Að fullvita íslenskt fólk geti látið sér detta í hug annað eins rugl, hvað þá “kosnir” fulltrúar þjóðarinnar sem kalla sig stjórnmálamenn, er hreint makalaust.
Manni dettur helst í hug ruglaða vændiskonu, sem skríður svo lágt, að hún tekur upp á því að greiða viðskiptavinum sínum, í stað þeir henni.  Ja, þá var nú Aronskan betri á sínum tíma, en heimskan og aumingjaskapurinn sem núverandi labbkútar og eigendur Bandaríkjanna leggja sig nú eftir.
Ég er farinn að halda að eitthvað af þessum vitleysingum séu hreinlega á launum hjá Bandaríkjamönnum, enda styðja þeir brjálæðinginn Bush, eins og væru þeir starfsmenn hans, og lífið liggi við.
Við eigum sem sé að greiða erlendu vígveldi sem hefur mist alla velsæmd og mannorð um víða veröld, til að halda uppi hersetu í föðurlandinu, sem hefur verrið hersetið allt frá stofnun lýðveldisins, og svo borga fyrir skömmina í þokkabót. Eru menn stórbilaðir, eða er eitthvað mikið verra og hættulegra að? Eru svartnæturöfl hér að verki?

MÓTMÆLUM ÖLL!

Það voru mótmæla kröfugöngur um allan heim núna um helgina, þá sérstaklega í Evrópu, á tveggja ára afmæli innrásarinnar í Írak, og hrottalegri hersetu Bandaríkjanna þar. En ekkert bólaði á mótmælum á Íslandi, allavega ekki í fréttum, sem lýsir litlum eða engum manndómi hjá stjórnarandstöðunni sem þykist vera á móti innrásarglæpnum, eða hjá verkalýðshreyfingunni, sem hefur hefðbundið skipulagt meðlimi sína í þágu góðra mála.  Það er skömm að þessu mandómsleysi!  Hvernig er það, er alls ekkert gagn í stjórnarandstöðunni?  Er eingöngu um að ræða ónýta spjátrunga sem hafa það eina markmið að hlýja fínu stólana á Alþingi með rassi sínum, taka sinn illa fengna aur af skattgreiðendum og rífa kjaft til að blekkja tilvonandi kjósendur sem hafa enga aðra völ, vitandi víst að engin á Alþingi tekur nokkuð mark á þeim? Ekki einu sinni  að hlustað  sé á þá. Stjórnarliðaskríll gerir jafnvel grín að þeim, og kallar stjórnarandstöðuna ýmsum ljótum nöfnum eins og ódannaðir götustrákar.

HERSETAN!

Á virkilega að láta heimsbyggðina horfa uppá að Íslendingar taki á móti fulltrúum Bush í apríl, til að biðja kúgandi vígveldið um að halda áfram hersetunni á Íslandi, og jafnvel að bjóða þeim borgun fyrir, verri en siðlausar hórur.
Eða, mun stjórnarandstaðan og verkalýðshreyfingin sjá sóma sinn í því að skipulega kröftuga mótspyrnu gegn svívirðingunni, og hreinlega banna stjórnvöldum sem þjóðin hefur mist alla trú á, að ræða við Bandaríkjamenn um framlengingu bandarísku hersetunnar á Íslandi. Er stjórnarandstæðan uppréttir virðingarverðir menn með heiðvirta hugsjón, eða ærulausir tækifærissinnar?
Ég persónulega tel að það eigi að ganga á fund Forseta Íslands, sem er æðsti stjórnmálamaður þjóðarinnar samkvæmt stjórnarskránni, og stendur þjóðinni næst, þar sem hann er eina persóna þjóðarinnar sem er lýðræðislega þjóðkjörinn. Það á að leggja til við háttvirtan forseta lýðveldisins, að hann víki ráðherrunum úr starfi fyrir afglöp, er hann skipaði í stöður sínar, sem stóðu að samsæri með Bandaríkjunum við að gera Íslendinga samseka innrásinni í Írak. Ennfremur að koma í veg fyrir að samið verði við Bandaríkjamenn um framlengingu á hersetu þeirra í landinu, hvað þá að þeim verði borgað fyrir veru sína. Það skal heimtað að Bandaríkin ljúki hersetu sinni á Íslandi og hverfi úr landinu nú þegar, með allt sitt hafurtask, og hreinsi vel eftir sig.
Forseti vor Ólafur Ragnar Grímsson á feril gegn hersetunni og hann lofaði fyrir síðustu kosningu að hann muni skipta sér verulega af málum þjóðarinnar samkvæmt stjórnarskránni, á núverandi kjörtímabili. Ég get ekki ímyndað mér meiri eða stærri mál en samsærið með Bandaríkjamönnum í innrásinni í Írak eða langvarandi erlenda hersetu  á Íslandi.
Það mætti jú bæta einkavinavæðingunni og þjófnaði eigna þjóðarinnar við, sem ég tel að núverandi stjórnvöld með nauman meirihluta á Alþingi, hafi ekkert umboð til að framkvæma.
Virðingarfyllst,
Helgi

Heill og sæll Helgi og þakka þér bréfið. Eitt vildi ég leiðrétta og það er að hér voru haldnir kröftugir fundir gegn Íraksstríðinu um helgina, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta kom fram í fréttum en þar sem ég hef grun um að þú sért staddur erlendis og þar sem þessum fundum voru ekki gerð mikil skil í fjölmiðlum hefur þetta  farið fram hjá þér.
Kveðja,
Ögmundur