Fara í efni

MÁ ÉG ÞÁ BIÐJA UM DALLAS

Fjölskyldudramað Össur/Ingibjörg Sólrún heldur áfram. Í sjónvarpsþætti í kvöld sagðist Ingibjörg Sólrún ekki vera viss hvort hún hætti í pólitík ef hún tapaði. Ég man ekki betur en hún segði í síðasta þætti að hún myndi hætta ef hún tapaði. Nú virðist vera komin upp ný staða hjá henni þótt formannsefnið benti á að hún yrði að sjálfsögðu í hrikalegri stöðu ef hún tapaði: Án embætta! Ég tek undir með Ingibjörgu Sólrúnu að þetta hlýtur að vera skelfileg tilhugsun. Össur segist muni halda áfram þótt hann tapi. Það var tappert af Össuri. En hvað þykir samfylkingarmönnum? Finnst þeim hægt að ætlast til þessa af honum? Hefur Samfylkingin ekki einhver embætti uppi í erminni? Mér kemur þetta svo fyrir sjónir að þannig hugsi menn almennt í þessum flokki, allt virðist snúast um embætti og titla.
Það var umhugsunarvert við sjónvarpsþáttinn í RÚV í kvöld að ekkert var rætt um áherslur í stjórnmálum, aðeins um titla og vegtyllur. Af hverju er ekki spurt út í afstöðu þeirra Össurar og Ingibjargar Sólrúnar til brennandi mála líðandi stundar og framtíðarsýn? Það mætti til dæmis ræða einkavæðingu í velferðarþjónustunni, heilbrigðiskerfi og skólakerfi, til dæmis spyrja um afstöðuna til Áslandsskóla. Þetta yrðu að vísu þá ekki lengur þættir um fjölskyldudrama heldur eitthvað miklu leiðinlegra, stjórnmál. En ef menn ætla að halda sig við fjölskyldudramað, þá verð ég að játa að ég get hugsað mér betra skemmtiefni en fjölskylduerjur í Samfylkingunni. Má ég þá heldur biðja um Dallas.
Sunna Sara