Fara í efni

HVAÐ GERÐI KRISTINN AF SÉR?

Í fréttum er nú rækilega tíundað að mikil sátt hafi skapast innan þingflokks Framsóknarflokksins. Okkur er sagt að þingflokkurinn hafi komið saman til kvöldmáltíðar og yfir þrírétta máltíð tekið Kristinn H. Gunnarsson í sátt. Mér hefur þótt Kristinn maður að meiri fyrir að halda uppi merkjum sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar innan þingflokksins og þótt það fremur til marks um slappleika þingflokksins en styrkleika Kristins að hann hafi verið útilokaður frá áhrifum og hvers kyns vegtyllum fyrir afstöðu sína. Nú er það mál manna að þingflokkur Framsóknarmanna hafi ekkert breyst. Þess vegna held ég að glöggum manni, sem ég hitti að máli í dag, hafi ratast satt orð á munn þegar hann spurði hvort ég vissi hvað Kristinn hefði gert af sér til að "verðskulda" nýtilkomna virðingu og vinarhót þingflokks Framsóknarmanna. Þetta væru dapurleg örlög fyrir jafn ágætan dreng og Kristinn H. Gunnarsson væri.
N.N.