Fara í efni

FRÁ ÖRBIRGÐ TIL ATHAFNA

Langt og farsælt samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkisstjórn hefur borið ríkulega ávexti. Af mörgu er að taka en ég vil að þessu sinni vekja athygli á róttækri tilraunastarfsemi stjórnarinnar í málefnum þeirra sem þurft hafa á virkilegu stuðningsátaki að halda í lífsins þrengingum. Í stuttu máli hafa tilraunirnar gengið út á, að í stað þess að raða öllum lítilmögnum landsins á eymdarjötu bótakerfis Tryggingastofnunar ríkisins þá hefur fáeinum útvöldum tilraunadýrum verið gefnar nokkrar ríkiskýr með blússandi nyt.

Forbes mælir svo árangurinn

Er skemmst frá að segja að aðferð þessi hefur gefist með afbrigðum vel. Tilrauna-öreigarnir hafa plumað sig með sóma – unnið af kappi, nótt sem nýtan dag, og látið aurana tala. Órækur vitnisburður hér um er að einmitt nú í þorrabyrjun flytur pressan okkur þau lygilegu en jafnframt ósegjanlega gleðilegu tíðindi að fyrrum öreigi, Björgólfur nokkur Thor Björgólfsson - en ríkisstjórnin gaf einmitt honum og tveimur öðrum utangarðsmönnum hina þjóðþekktu Landsbankakú - verði að líkindum fyrsti Íslendingurinn til að komast á lista Forbes yfir ríkasta fólk í heimi. Er nú herra Forbes í óða önn að sannreyna eignasafn Björgólfs og er í þeim erindum stödd hérlendis á hans vegum frú Luisa nokkur Kroll, ritstjóri, sem kannar af vísindalegri nákvæmni hvort Björgólfur eigi ekki fyrir sætinu á lista ríkustu einstaklinga heims. Bendir fátt til annars en að það sé gulltryggt því að verðmæti eignanna nema líklega vel á annan milljarð Bandaríkjadollara, og eru þá ekki tekin með í reikninginn teinóttu jakkafötin hans pabba.  

Hin nýja og kraftmikla félagsmálastefna

Svona kröftug og árangursrík er hin nýja félagsmálastefna í þágu hinna efnaminni. Yfirburðirnir yfir gamla kerfið eru algerir og óhætt að fullyrða að seint munu þau herra Forbes og frú Kroll þurfa að banka upp á hjá viðskiptavinum Tryggingastofnunar, enda lepja velflestir á þeim bænum dauðann úr skel kommúnismans.
Ríkisstjórnin hefur unnið afrek í málefnum Björgólfs og nokkurra annarra og nú verður haldið áfram á sömu braut. Næst á dagskrá er að gefa Landssímakúna og fleiri kýr verður að láta af hendi rakna til að sem flestir geti notið ávaxtanna. Þá er það mín prívat-skoðun, en þar er ég örugglega ekki einn á báti, að aðkallandi sé að jafna fátæktarmúra sósíal- og kratismans, í líki Tryggingastofnunar, við jörðu hið fyrsta. Ríkisstjórnin hefur nefnilega sýnt fram á að með einni góðri meðgjöf – hraustlegu starti – sem og réttu hugarfari geta menn rifið sig upp úr örbirgð og til allsnægta. Ekki svo að skilja að ég sé að halda því fram að stefna stjórnarflokkanna muni tryggja öllum Íslands fátæklingum sæti á lista Forbes. Það eru jú alltaf einhverjir sem skara fram úr en vafalaust mun margt gott fólk njóta góðs af öllu saman. En jafnöruggt er líka að einhver hópur manna mun alltaf hanga á horriminni og er þar hvorki við ríkisstjórnina né okkur hin að sakast. Þannig er nú þetta líf einu sinni að sumir verða barasta að éta það sem úti frýs, kjósi þeir sér það hlutskipti. Í þessu samhengi – og þó við viljum vitanlega öll okkar smæstu systrum og bræðrum allt hið besta, þá megum við ekki gleyma þeim fornu sannindum að misjafn er sauður í mörgu fé, að hver er jú sinnar gæfu smiður og loks að góður Guð hjálpar einungis þeim sem hjálpa sér sjálfir. En eins og dæmin sanna spillir það aldeilis ekki fyrir mögulegri velgengni að hafa í handraðanum þokkalegt startkapítal frá skilningsríkum og velviljuðum stjórnvöldum. Þar kemur hin nýja félagsmálastefna til skjalanna og ríður oftar en ekki baggamuninn.

Jón frá Bisnesi