Fara í efni

Um kvóta, strandsiglingar og maurasýru

Komdu sæll.
Eins og Norðlendingum er háttur þá kynni ég mig. Finnur Sigurðsson, dóttursonur Siglaugar Brynleifssonar rithöfundar, málara, menntaskólakennara svo eitthvað sé nefnt. Spurningar mínar eru tvær. Í sambandi við Kvótamálin:hvert fer auðlindagjaldið ? Er ekki eðlilegast að það renni til þeirra byggða sem viðkomandi útgerðir og kvótar tilheyra? Svo var ég að komast að því að um áramótin þegar strandsiglingum verður hætt verða keyrðir 20.000 lítrar af maurasýru (notuð í rækjuvinnslu) einu sinni í viku til Siglufjarðar. Þess má geta að 25-30 lítrar eyða öllu lífi í Mývatni. Hvað er hægt að gera í þessum málum ?Kveðja,
Finnur Sigurðsson,
Slökkviliðs- og Sjúkraflutningamaður. Akureyri.

Heill og sæll Finnur.
Komdu sæll og blessaður Finnur. Það liggur við að mér finnist ég þekkja þig þar sem ég þekkti afa þinn vel og mörg hans skyldmenni. Varðandi auðlindagjaldið sem nemur um 700 milljónum króna að ég hygg, þá rennur það í ríkissjóð, m.a. til að fjármagna Hafrannsóknarstofnun. Mér finnst sú hugmynd sem þú viðrar, að auðlindagjaldið renni til sjávarbyggða vel koma til greina, þótt mér finnist reyndar að svo eigi aðeins að vera að hluta til. Samkvæmt tillögum VG um nýtt fiskveiðkerfi er  hugmyndin einmitt sú að þriðjungur kvótans gangi til sjávarbyggða til ráðstöfunar.
Varðandi strandsiglingarnar þá viðrar þú tvennt.
Annars vegar þá spurningu hvað hægt sé að gera eftir að strandsiglingar leggjast af. Í VG lögðum við fram þá tillögu að siglingarnar yrðu boðnar út á vegum ríkisins. Það gæti verið mjög hagkvæmur kostur því miklum mun heppilegra er að flytja alla þungaflutninga á sjó en á landi. Menn gleyma því nefnilega stundum hvað það kostar að nýta vegina til þungaflutninga. Álagið á vegina af einum fullhlöðnum stórum flutningabíl með vagni er álíka mikið og af tæplega 30 þúsund venjulegum bílum! Ríkið á að mínu mati að koma þarna með stuðning í einhverju formi. Það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt. Varðandi hagkvæmni sjóflutninganna vísa ég til dæmis á þessa samantekt hér: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/thegar-markadslausnir-eru-andstaedar-skynsemi-og-thjodarhag

 Síðan vekur þú athygli á hættunni sem stafar af flutningi eiturefna. Hér langar mig til að vekja athygli á fyrirspurn sem nú liggur fyrir þinginu frá Álfheiði Ingadóttur og Þuríði Backman:
    1.      Hvaða reglur gilda hér á landi um flutning hættulegra efna, sem eld-, sprengi- og mengunarhætta stafar af, og eftirlit með honum?
    2.      Eru þær reglur sambærilegar því sem gildir annars staðar á Norðurlöndum?
    3.      Hefur verið gerð úttekt á flutningi hættulegra efna um þéttbýli, göng og vegskála hér á landi?
    4.      Hefur ráðherra áætlanir um að herða eftirlit og láta gera hættumat vegna þessa?
    5.      Hafa flutningar umræddra efna aukist á þjóðvegum landsins vegna minnkandi strandsiglinga og er fylgst með umfangi þeirra?

Óskað er eftir skriflegu svari. Þannig að þingmenn VG deila  áhyggjum þínum.  Nú bíðum við svars.
Ég þakka þér kærlega fyrir bréfið og óska þér alls góðs.
Með kveðju,
Ögmundur