1000 kall á ári og samráðsárin ljúfu
Sæll Ögmundur.
Undarleg tilveran. Þórólfur tilkynnir um að hann hætti mestan part
vegna krafna fulltrúa VG ef marka má fréttir og eftir sitjum við
hugsi. Um hvað snýst þetta samráðsmál eiginlega? Þórólf Árnason?
Snýst þetta ekki um víðtækt verðsamráð olíufélaganna? Hverfur það
með brotthvarfi Þórólfs? Ég er ekki alveg viss. Þegar ég kaup
benzín á bíltíkina mína skiptir engu máli hvort ég kaup inn hjá
Esso, Skeljungi, eða Olís. Ég get dælt sjálf á hjá Orkunni eða
Atlantsolíu og það er alveg sama. Staðan í heimilisbókhaldinu
breytist ekkert alveg sama hvað ég eltist við lægsta
benzínlítraverðið. Bíllinn minn eyðir 9 lítrum á hverja 100 ekna
kílómetra. Ég keyri 10 þúsund kílómetra á ári og nota til þess 900
lítra af eldsneyti. Ég hef dælt á bílinn sjálf í ár og fylgst með
verðlagningu benzíns hjá systrunum þremur. Munurinn hefur verið um
það bil ein króna á hvern lítra. Mér til mikillar skelfingar
uppgötvaði ég að þessi eltingaleikur minn við ódýrt benzín hefur
kannske skilað mér eitt þúsund krónum á heilu ári. Athyglisvert. Ég
get ekki staðið í því frekar en aðrar að setja vetrardekkin undir
sjálf heldur fer ég á dekkjaverkstæði. Akstursbókin mín segir mér
að ég hafi í síðustu viku greitt 1500 krónum meira fyrir þjónustuna
þar en ég gerði í fyrra. Úff, þar fór öll fyrirhöfnin í
benzínstríði mínu og gott betur. Til umhugsunar. Ég fór að reyna að
ná áttum í olíufélagsmálunum. Þau eru enn að reka saman hin og
þessi fyrirtæki og yfirvöld virðast ekki sjá neitt athugavert við
það. Yfirvöld já, hvernig stendur á að olíufélögin hafa getað komið
sér svona fyrir á 11 ára tímabili. Er hugsanlegt að
Samkeppnisstofnun hafi orðið á í messunni, eða viðskiptaráðherrum
síðustu 11 ára? Er kannske einhver í Samkeppnisstofnun, eða í
viðskiptaráðuneytinu sem hefði átt að segja af sér? Arnarhváll var
vinnustaður Finns Ingólfssonar um nokkurra ára skeið. Hann varð
viðskiptaráðherra 1995 ef ég man rétt og sat hann þessi ljúfu
samráðsár í embætti. Gæti verið eitthvað samband milli
afskiptaleysis Samkeppnisstofnunar eða viðskiptaráðherra, hverjir
áttu Essó á samráðstímanum og hverjir voru þar innstu koppar í
búri? Áttu fulltrúar VG í borginni kannske að beina ljóskastara
sínum frá Þórólfi að þeim stóru strákum? Það var einhvern tíma
fjallað um kaup S-hópsins á Búnaðarbankanum á síðunni þinni
Ögmundur með þessum orðum: "Góð fréttamynd sýnir ekki bara þá mynd
af raunveruleikanum sem hið pólitíska vald heldur að okkur til
einföldunar og þæginda, fréttamyndin afruglar þá tálsýn og færir
okkur raunveruleikann sjálfan. Fréttamynd ársins er fjögurra dálka
baksíðumynd eftir Þorkel í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hún sýnir
Ólaf Ólafsson, forstjóra Samskipa, og Finn Ingólfsson, forstjóra
VÍS, renna frá Arnarhváli eftir að hafa fengið Búnaðarbankann á
kostakjörum. Þeir eru gleiðbrosandi félagarnir, enda ástæða til, og
engu líkara en Ólafur Ólafsson sé að stinga á sig kvittun fyrir
bankakaupin um leið og bílstjórinn ekur af stað....Sigurbrosið á
samskipsforstjóranum og varaformanni Framsóknarflokksins
fyrrverandi ljá þeim yfirlýsingum forsætisráðherra að bankarnir
hafi verið seldir á góðu verði laukrétta meiningu. Þetta er góð
sala fyrir kaupandann og kjarninn í raunveruleikanum sem
ljósmyndaranum tekst að miðla okkur. Á broti úr sekúndu missa þeir
andlitið, Ólafur og Finnur, og við sjáum glitta í óneitanlega
nokkuð drýgindalega en um leið barnslega ánægju þeirra með
gjöfina." Þurfa ekki þingmenn VG að grafa duglega í hauginn til að
varpa ljósi á raunverulegar persónur og leikendur í stað þess að
láta sér nægja að reita arfann?
Ólína