Varað við einkaframkvæmd

Kæri félagi!
Sem Samfylkingarmaður og gaflari tek ég heilshugar undir varnaðarorð þín varðandi ýmsar hugmyndir framtíðarnefndar Samfylkingarinnar, einkum það sem snýr að einkaframkvæmdarhugmyndum í heilbrigðis- og menntakerfi. Auðvitað er sjálfsagt að skoða allt með opnum hug en hvað varðar einkaframkvæmd í þessum málaflokkum þá hefur komið í ljós, þegar þau mál eru skoðuð, að þessi leið er bæði dýrari og á allan hátt óhagkvæmari fyrir skattborgarana og þá sem á þessari þjónustu þurfa að halda. Við Hafnfirðingar brenndum okkur á þessum þegar Áslandsskóli var reistur og rekinn í einkaframkvæmd. Það var dýr tilraun fyrir samfélagið og tel ég enga ástæðu til að endurtaka hana. Það eru ekki bara vinstri menn sem leggjast gegn þessari leið. Þeir hægri menn, eins og t.d. Gunnar Birgisson alþingismaður og bæjarfulltrúi í Kópavogi, sem hafa skoðað þetta, hafa komist að sömu niðurstöðu. Einkaframkvæmd opinberrar þjónustu verður alltaf dýrkeypt fyrir samfélagið. Það liggur líka í augum uppi. Fyrirtæki sem rekur skóla í einkaframkvæmd þarf að skila hagnaði, rekstur skóla hjá sveitarfélagi eða ríki þarf einungis að standa undir sér. Stöndum saman gegn þessu rugli og bruðli með almannafé hvar í flokki sem við erum.
Sáfi

Fréttabréf