Fara í efni

Ómálefnaleg gagnrýni á Ingibjörgu

Ekki ætla ég gera ykkur upp neinar annarlegar hvatir, þér Ögmundur og henni Lóu, en ég tel að gagnrýni ykkar á hana Ingibjörgu Sólrúnu sé ósanngjörn og á misskilningi byggð. Ingibjörg er sagnfræðingur og þekkir vel gangverk sögunnar og mikilvægustu hreyfiöflin í henni en það eru einmitt þeir einstaklingar sem þora, geta og vilja, þeir ómissandi einstaklingar sem Guð hefur skenkt ríkulega af þeim eiginleikum að rísa upp úr almennri meðalmennsku og aumingjabrag. Tökum Íslandssöguna sem dæmi. Fyrst kom Ingólfur og nam landið af eigin rammleik. Þá kom Jón forseti og lagði grunninn að sjálfstæði okkar. Afraksturinn af eljusemi Jóns, sem var vel að merkja ekki með sýfilis eins og sumir dónar hafa viljað klína á hann í seinni tíð, birtist svo í heimastjórninni sem Hannes Hafstein startaði af miklum myndugleik og karlmennskukrafti. Of langt mál yrði að tína upp alla hina í Ráðherratalinu nýja sem Davíð Oddsson ýtti úr vör og skilaði heilu í höfn á haustdögum. Allt voru það, eins og lesa má um svart á hvítu, afreks- og ofurmenn með sínum hætti. Og talandi um Davíð - hann hefur nú aldeilis sýnt hvað sterkir leiðtogar skipta miklu máli þegar vesæl þjóð á norðurhjara er á aðra síðuna.

Og hvað með athafnaskáldin, skipta þau ekki máli? Staðreyndin er sú að fáir hafa gert eins mikið fyrir íslenska þjóð og ég vil segja, í bókstaflegum skilningi dregið hana upp úr skítnum. Vil ég þar sérstaklega nefna Thor Jensen, Jóhannes í Bónus, son hans Jón, líka Jón bæjó og þá Björgólfsfeðga sem komu færandi hendi frá Rússlandi og þannig mætti áfram telja. Nei, Ögmundur, ég held þú ættir að hætta meðalmennsku- og aumingjadýrkuninni og viðurkenna þá staðreynd að það eru fyrst og síðast öflugir einstaklingar, hinir fáu guðs útvöldu leiðtogar, sem skipta sköpum í framvindu samfélagsins. Það eru þeir sem toga framtakslausan almenninginn með sér áfram veginn – með góðu eða illu – og ætíð til betra lífs. Og á meðal þessara ofureinstaklinga er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Og af hverju í ósköpunum má hún ekki gangast við því?Jón Jónsson krati, Ísafirði