Fara í efni

Hvers vegna má Íslandsbanki ekki yfirborga - og hvað með Landakot?

Sæll Ögmundur og þakka svarið.
Það sem liggur í báðum spurningum mínum er þetta tvennt, hvernig tryggjum við börnunum lögbundinn rétt til kennslu eða menntunar og hvernig tryggjum við að efnahagslegar afleiðingar verkfallsins bitni ekki á foreldrum sem eru illa staddir peningalega, sem geta ekki fengið að vinna heima og sem neyðast til að greiða verulegar upphæðir fyrir gæslu barna á meðan þau fá ekki kennslu í skólunum. Sé verkfallið launadeila þá hlýt ég að gera ráð fyrir að verkfallið hafi þau áhrif að sveitarfélagið sjái sér hag í að semja eftir þrýstiaðgerðir sem bitna á því. Engu slíku er til að dreifa nú. Sveitarfélögin spara, sveitarstjórnir hins pólitíska litrófs standa saman sem einn maður á bak við launanefnd sveitarfélaganna og afleiðingarnar bitna á börnum og þeim foreldrum sem eru illa stæðir. Svar í formi spurningar: Leiði verkfallið til þess að foreldrar verða opnari fyrir skólagjöldum hvað væri þá athugavert við að til dæmis Íslandsbanki ræki sérstakan grunnskóla, yfirborgaði kennara með skólagjöldum foreldra og eigin framlagi til menntunar barna starfsmanna sinna? Hver er munurinn á þessu og skóla hinnar róttæku miðstéttar sem hefur verið í gangi alla verkfallsdagana í Landakotsskóla? Eru ekki kennararnir í þeim skóla í Kennarasambandinu? Og hvers á vinkona mín með börnin tvö að gjalda? 27 þúsund krónurnar sem verkfallið hefur kostað hana er um 20% af ráðstöfunartekjum hennar, en hún kaus ekki yfir sig þessi útgjöld. Það voru 90% Kennarasambandsins sem lögðu á hana þennan aukaskatt. Það er nauðsynlegt finnst mér að ræða þessar einföldu staðreyndir líka, annars er hætt við að verkfallsrétturinn eða önnur sjálfsögð réttindi launafólks verði ekki varin með þeim krafti sem nægilegur er til að hrinda þeirri sókn sem er í gangi,
Ólína

Þakka bréfið Ólína. Ég leyfi mér að hafa miklar efasemdir um að foreldrar verði opnari fyrir skólagjöldum vegna verkfallsins. Ég held að það sé mjög almennt viðhorf í þjóðfélaginu að slíkt leiði fyrr eða síðar til mismununar. Eins og sakir standa er mikill hagnaður hjá Íslandsbanka. En þegar harðnar á dalnum? Og hvað með fyrirtæki sem ramba á barmi gjaldþrots? Eiga börn starfsmanna þeirra að fá lakari menntun? Við megum ekki fórna samfélagslega reknum grunnskóla fyrir nokkurn mun.
Kveðja,
Ögmundur