Fara í efni

Hverjir eiga að sjá um varnir Íslands?

1. ,,Ísland getur ekki lengur treyst á að Bandaríkin verji landið og verður því að snúa sér í auknum mæli til Evrópu til að tryggja öryggi landsins”. Getur þú rökstutt afstöðu þína til þessarar fullyrðingar?  2. Hverjir eiga að sjá um varnir Íslands?
Jón Sigurður Eyjólfsson

Komdu sæll.
Ég held að við verðum að byrja á því að spyrja gegn hverjum við þurfum að tryggja öryggi okkar. Ríkisstjórnin hefur hamrað á því að hér þurfi að vera loftvarnir. Hver er líklegur til að ráðast á okkur úr lofti? Danir? Eða Bretar, Rússar, Írakar eða Norður-Kóreumenn? Varla Írar eða Norðmenn? Þetta er náttúrlega eins og hvert annað rugl. Sú hætta sem gæti verið raunveruleg stafar af hryðjuverkamönnum. Samkrullið við Bandaríkjastjórn og undirlægjuháttur gagnvart henni og fylgisfiskum hennar er það sem raunverulega er okkur hættulegt. Við spyrðum okkur saman við heimsveldi sem fer með hernaði um heiminn allan til að verja sérhagsmini sína. Þetta kallar á hatur og hefndir. Stærsta skrefið sem við gætum stigið er að losa um taglhnýtinguna við Bandaríkjastjórn og fylgja réttlætiskennd okkar á alþjóðavettvangi. Þetta er mín skoðun og innsta sannfæring og svarar einnig spurningu númer tvö. Við eigum sjálf að sjá um öryggi okkar og það gerum við með réttlátri afstöðu okkar á alþjóðavettvangi.
Kveðja,
Ögmundur