Fara í efni

Horfum til framtíðar

Það er ekki hvinur eins og í haustlaufi. Það er einkennilegur hvinur, harður og málmkenndur, ógnvekjandi. Hann er engu líkur og eins og af öðrum heimi. Svo ærist allt. Hversdagurinn breytist í helvíti af allt öðrum heimi. Vígamenn, karlar, konur, gamalmenni og börn. Þú rankar við þér með innyfli annars manns um hálsinn, ataður blóði, með vitin full af sandi og ryki og svo finnurðu fnykinn af sviðnu holdi, mannsholdi. Ef þú hefðir verið með kveikt á stuttbylgjuútvarpsviðtæki á fréttatíma íslensku ljósvakamiðlanna og ef þú skildir íslensku þá hefðirðu heyrt í nýbökuðum forsætisráðherra Íslands viðurkenna, að þegar hann sagði Írökum stríð á hendur þá hefði hann ekki haft réttar upplýsingar. Úff, mikið var, hlýturðu að hugsa feginn, og enn fegnari hlýturðu að hafa verið þegar þú heyrðir forsætisráðherrann segja að mikilvægast væri að hugsa um framtíðina. Og rólegri hlýturðu að vera þegar þú hreinsar innyfli annars manns framan úr þér, leggur frá þér framhandlegg lítillar stúlku úr næsta húsi og klöngrast upp úr sprengigígnum sem F-15 vélarnar skildu eftir sig. Sagðist hann ekki hafa fengið rangar upplýsingar? Hvaða upplýsingar og hver veitti þær?
Stefán