Stórsjór í tebolla?
Sæll Ögmundur
Hvernig vilt þú að ráðherralið Framsóknarflokksins verði eftir 15.
september? Finnst þér ekki skipta máli hvernig ráðherrabekkurinn
verður skipaður?
Kveðja,
Guðbjörn
Sæll Guðbjörn og þakka þér bréfið með fyrirspurn þinni. Auðvitað
skipta einstaklingar máli. Það á líka við um framsóknarmenn eins
ótrúlegt og það kann að hljóma. En það er vissulega blæbrigðamunur
á einstaklingum sem verma ráðherrastólana hjá Framsókn og líka á
hinum sem sitja úti í þingsalnum og langar nú upp á bekkinn. En
þrátt fyrir muninn skulum við ekki gleyma því að allt er þetta nú
samt fólkið sem samþykkti Kárahnjúkana, gagnagrunninn,
fjölmiðlafrumvarpið, öryrkjalögin, einkavæðingu og gjafaútsölu á
ríkiseignum og niðurskurð á Landspítalanum og öðrum sjúkrastofnunum
landsins. Þannig að þegar allt kemur til alls erum við fyrst og
síðast að tala um persónupólitík þegar slagurinn í Framsókn er
annars vegar, eða heyrist nokurn tímann minnst á málefni? Í kringum
persónupotið er vissulega oft talsverður gusugangur. En menn mega
ekki rugla honum saman við pólitískan ólgusjó. Nema menn vilji tala
um stórsjó í tebolla Framsóknar?
Kveðja,
Ögmundur