Fara í efni

Mikilvæg umræða er hafin

Stórskemmtileg og djúp umræða er að hefjast vegna ákvörðunar Eimskipa að hætta strandflutningum. Hinn margfrelsaði og reyndar ágæti penni, Guðmundur Magnússon skrifar af því tilefni leiðara í Fréttablaðið, málgagn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Það er því miður aðferð frelsaðra að vita öll svör án undangenginnar röksemdafærslu, þar sem þeir hafa öðlast innsýn inn í hið himneska samræmi allra hluta í hinum besta heimi af öllum mögulegum; þannig að þeim er yfirleitt aldrei nauðsynlegt að setja sig inn í málin.
Guðmundur segir:
"Flest bendir til þess að ákvörðun stjórnenda Eimskipafélags Íslands nú um mánaðamótin að hætta strandsiglingum innanlands og flytja varninginn í staðinn landleiðina sé byggð á raunsæju mati á markaðsaðstæðum. Komi á daginn að svo er ekki munu lögmál samkeppni og frjáls markaðar innan tíðar sjá til þess að aðrir fylli í skarðið sem myndast hefur."

Og seinna í leiðaranum segir Guðmundur:
"Stuðningur við bætt vegakerfi í kjölfar breytts flutningamynsturs væru eðlilegri og nútímalegri viðbrögð stjórnmálamanna en tilraunir til að handstýra flutningaþróuninni." Þarna eru óþægilegar mótsagnir á ferðinni. "Stuðningur" við vegakerfið er ekki "handstýring", ekki frekar en 150 milljóna króna kostnaður við að koma Íslandi í öryggisráðið, eða hvað?

Vandamálið við þetta einsog svo margt annað, er að "the devil is in the detail" (vandamálin fela sig í smáatriðunum). Það er áreiðanlega ekki markaðsgrundvöllur fyrir alla þá hluti sem við viljum samt fjármagna sameiginlega og það er það sem við köllum í daglegu tali stjórnmál. Vinstri menn eru ekkert stjórnlyndari en hægri menn. Það er ekkert meira stjórnlyndi falið í því að leggja 400 milljónir á ári til strandsiglinga (sem er ca. sú upphæð sem lögð var til á sínum tíma) en að setja 700 milljónir í sendiráð í Tókýó til að niðurgreiða sölukostnað SH í Japan. Ráðstöfun á almannafé er ekki flokkanleg átómatískt í hægri og vinstri; ég er hræddur um að við verðum að nenna að hugsa. Það fæst svo lítið í hinum pólitísku heildsölum einsog stendur. Guðmundur fjallar ekkert um það hvort það séu einhverjir hagsmunir handan við arðsemiskröfur Eimskipafélagsins. Það er sem sé Eimskipafélagið sem skilgreinir hagsmuni heildarinnar. Það er barnaleg hugsun og alveg flöt og blæbrigðalaus. Nenna menn ekki að hugsa út fyrir hinar himnesku formúlur?

Út frá venjulegri búmannshagfræði lítur dæmið svona út: a) Við gefum okkur að við viljum halda byggð í landinu á því plani sem hún er núna. b) Við viljum reyna að minnka aðstöðumun fólks einsog hægt er innan skynsamlegra marka c) Spurningin er því: Hvort er dýrara að setja þá peninga sem þarf til að viðhalda vegunum nægilega vel til að þola aukna flutninga, eða setja peninga í "Skipaútgerð Ríkisins"? Þetta hefur ekkert með frjálshyggju/kommúnisma að gera.
Með kveðju,
Þráinn