Fara í efni

Íslenskir hryggleysingjar og utanríkisstefna Bandaríkjanna

Sæll Ögmundur.
Ég þakka þér fyrir prýðisgrein um dapurlega innkomu Davíðs Oddssonar í heimsfréttirnar í tengslum við fund hans með Bush Bandaríkjaforseta. En hvað veldur því að forystumenn ríkisstjórnarinnar, þeir Davíð og Halldór Ásgrímsson, liggja flatir eins og hryggleysingjar fyrir herskárri og óhugnanlegri utanríkisstefnu Bush-stjórnarinnar? Auðvitað vita allir Íslendingar af uppdráttarsýkinni í herstöðinni á Miðnesheiði sem þeir Halldór og Davíð eru að reyna að halda lífi í og hanga á eins og hundar á roði. En er eitthvað fleira en framhaldslíf fyrir herstöðina sem þeir vilja fá í þóknum frá Bandaríkjamönnum fyrir sína ógeðfelldu fylgispekt? Gaman væri að heyra frá þér um það.
Kveðja,
Guðmundur Sigurðsson

Komdu sæll Guðmundur og þakka þér fyrir bréfið. Því miður held ég að meira en Miðnesheiðin hangi á þessari spýtu. Ég held að þeir Davíð og Halldór hafi gengist upp við að fá klapp á kollinn frá Bush og félögum, sem hringja í þá annað veifið og segja þeim að þeir séu ómetanlegir vinir og að það sé nú ekkert slor að eiga aðra eins og þá að. Úr þessu verður síðan gagnrýnislaus fylgispekt. Þeir fylgja andlegum leiðtogum sínum þeim Bush og Blair, nánast umhugsunarlaust og skiptir þá engu að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er þeim andvígur eins og fram kom í Íraksmálinu.
Með kveðju,
Ögmundur