Virðing í anda Morgunblaðsins

Sæll Ögmundur.
Ég er ein af þeim sem jafnan hef varið Morgunblaðið í vinahópi mínum þegar það hefur verið gagnrýnt. Ég hef líka reynt að halda fram þýðingu Morgunblaðsins fyrir íslenska menningu og íslenska þjóð þar sem ég hef komið og Morgunblaðið hefur sætt gagnrýni. Nú geri ég það ekki meir og ég er raunar ein þeirra sem er hætt að kaupa blaðið eins og ég hef gert í áratugi. Það var ekki fyrirsögnin á forsíðu blaðsins síðastliðinn laugardag sem fékk mig til að snúa við blaðinu og það var ekki andstaða blaðsins við Ólaf Ragnar Grímsson sem olli sinnaskiptum mínum. Mér fannst fyrirsögnin hláleg og minnti mig á frétt sem ritstjórar blaðsins kokkuðu og settu á sama stað haustið 1979. Fyrirsögnin þar var Leiftursókn gegn verðbólgu en þá, eins og kannske nú, héldu ritstjórar blaðsins að þeir væru stjórnmálaflokkur. Mig minnir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi þá snúið á þá og snúið fyrirsögn flokksins uppá þá sjálfa með því að breyta henni í Leiftursókn gegn lífskjörum. Með því var tiltekin hugmynd um nýja ríkisstjórn kæfð í fæðingu en það er annað mál. Það sem mér ofbauð og varð til þess að leið mín og Morgunblaðsins liggur ekki lengur saman var pistill í Staksteinum 17. júní síðastliðinn. Þar fjallar ritstjóri blaðsins um samskipti Vigdísar Finnbogadóttur og fréttamanns á Stöð 2. Um það sem þeim fór á milli veit enginn neitt nema sá sem hlustaði og sá og því vil ég enga skoðun hafa á því máli, en ofbauð hins vegar það sem fram kom Í óþökk Vigdísar. Í þeim stutta pistli segir orðrétt: "Vigdís Finnbogadóttir gegndi embætti forseta Íslands í 16 ár af reisn, þótt hún hafi eins og aðrir forsetar orðið fyrir gagnrýni fyrir einstök embættisverk. Hún er eini íslenzki forystumaðurinn á sviði þjóðmála, sem náð hefur heimsfrægð. Hún var þekkt um allan heim. Þeir núlifandi Íslendingar eru ekki margir, sem hægt er að segja að eigi kröfu til að þeim sé sýnd virðing og tillitssemi í opinberum umræðum. Vigdís Finnbogadóttir er í þeim hópi." Það er smæðin og minnimáttarkenndin í þessum orðum sem fengu mig til að hætta að kaupa blaðið. Krafan er að sýna Vigdísi virðingu og tillitssemi í opinberri umræðu af því hún er heimsfræg og hún er auk þess í fámennum hópi núlifandi Íslendinga sem eiga rétt á að þeim sé sýnd þessi virðing og tillitssemi í opinberri umræðu. Það er sú almenna og grímulausa mannfyrirlitning sem fram kemur í orðum ritstjóra Morgunblaðsins sem fékk mig til skilja við blaðið. Satt best að segja fór um mig hrollur þegar ég las pistil hans 17. júní. Ég geymi þetta síðasta Morgunblað sem ég kaupi. Ég geymi það til að minna mig á að stalínísk rétthugsun getur flutt inn á hvaða heimilisfang sem er og ég geymi það til að minna mig á að undir orðskrúði og kröfunni um ákveðið siðferði annarra lúrir stundum svipuð afstaða til almennings og ríkjandi var í fjarlægu landi fyrir miðja síðustu öld. Ég er hvorki heimsfræg né fyrrverandi forseti og hvorki ég né fjölskylda mín eru í þeim meirihluta sem Morgunblaðinu finnst að ekki geti gert kröfu um að sýnd sé virðing og tillitssemi í opinberri umræðu. Ég er núlifandi og ekki heimsfræg, en ég læt ekki tala svona til mín. Ritstjóri blaðsins hefur rétt á að hafa þessa skoðun og setja hana fram í blaðinu sem hann er ráðinn til að ritstýra. Mér finnst hins vegar að eigendur blaðsins hefðu fyrir löngu átt að láta okkur, sem eigum ekki rétt á virðingu og tillitssemi í opinberri umræðu, vita að ritstjórinn talar ekki fyrir Morgunblaðið heldur sjálfan sig. Það gerðist ekki og því er ég hætt við Moggann.
Ólína

Fréttabréf