Fara í efni

Nei Ólafur, nei

Í sunnudagsmogga sitja forsetaframbjóðendur fyrir svörum. Þeir svara ágætlega fyrir sig, ekki síst Ólafur Ragnar. Vanur maður. Af hverju er núverandi forseti stoltastur frá átta ára forsetaferli sínum, spyr blaðamaður. Ólafur Ragnar Grímsson hefur upp mikla frásögn af því sem hann telur að vel hafi tekist til um. Hann hafi til dæmis stuðlað að framgangi íslenskra listamanna. Ágætt, prýðilegt. En í sömu setningu er upptalningunni haldið áfram, hann hafi "fengið að leggja þeirri nýju kynslóð lið sem stundar landnám í viðskiptum víða um heim." Vissulega ber að gleðjast þegar íslensk fyrirtæki hasla sér völl á erlendri grundu og koma íslenskri hönnun og vöru á markað. Það sem mér býður hins vegar í grun að búi að baki þessum ummælum er að forseti Íslands sé að hælast yfir stuðningi sínum við íslenska stórkapítalista sem hafa verið að sölsa undir sig eignir fátækra þjóða, ekki síst á Balkanskaganum, nú síðast Landssímann í Búlgaríu, sbr. gagnrýnar greinar þínar um það efni Ögmundur hér á síðunni. Ég man ekki betur en forsetinn hafi farið með fulla flugvél af diplomötum og fréttamönnum þegar Pharmaco var að fá í hendur einkavædda lyfjaverslun þarna suðurfrá. Auðvitað auðveldar það þessum mönnum að fara ránshendi um fátæk þjóðfélög þegar virðuleg forsetaembætti leggja hönd á plóg og stimpla allt í bak og fyrir. Svona vil ég hins vegar ekki láta nota embætti forseta Íslands. Síðan er það þetta tal um kynslóðina sem Ólafur segir að standi í þessu braski. Þetta eru að mínu viti örfáir menn og fráleitt að tala um kynslóðir í þessu efni. Fólk af sömu kynslóð og þessir menn er nefnilega að fást við margt nytsamlegt og uppbyggilegt og er sem betur fer ekki að beina orku sinni að því að hafa félagslegar eignir af fátæku fólki. Því segir ég, láttu af þessu athæfi Ólafur og hlífðu okkur við þessu tali.
Hafsteinn Orrason