Fara í efni

Múrinn rofinn...en hvað svo?

Sæll Ögmundur
Nú hefur það gerst sem fæstir áttu von á, forsetinn hafnaði fjölmiðalögunum. Það er ekki ástæða að velta vöngum yfir áhrifum þjóðaratkvæðagreiðslu almennt, heldur gleðjast yfir því að sá múr sé rofinn. Hve oft höfum við vinstrimenn ekki óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um ýmis mikilvæg mál svo sem herinn, NATÓ, EFTA, EES, Kárahnjúka og fleira. Það sem veldur áhyggjum er að það mál sem sett verður undir dóm þjóðarinnar, er þangað komið að kröfu fjölmiðlaveldis á Íslandi og stjórnarandstöðunnar (þar sem alþingismenn óttast óvinsældir fjölmiðlanna). Ef frumvarpið verður fellt, verður þá hægt að setja fram annað frumvarp með þeim breytingum sem væru vinstri mönnum að skapi? Verður ekki öll umræða kæfð í formlegheitum og múgæsingu?  Verður yfir höfuð hægt að setja reglur um fjölmiðla eftir þann darraðardans sem nú verður stiginn? Hvað með RÚV, hverir stjórna því efir boðaðar breytingar ráðherra, verður hægt að ræða það af einhverri yfirvegun? Verður umræða um fjölmiðla ekki tabú eftir þessa meðferð? Við vitum að mikill meiri hluti þjóðarinar veit ekki um hvað þetta snýst, flestir halda að 500 manns missi vinnuna og Davíð (kolkrabbinn) sé að lumbra á Baugi. Menn halda með Ólafi gegn Davíð eins og í kappleik eða öfugt. Munu málefnin ekki kafna í þessum umbúðum?

Ég endurtek áskorun mína um að menn taki málefnalega á þessu máli og láti ekki berast hugsunarlaust með straumnum.

Nú verða vinstri menn að svara, er ef til vill best að styðja frumvarpið eða viljum við ekkert frumvarp? Svarið þykir mér ekki liggja í augum uppi.

Rúnar Sveinbjörnsson

Heill og sæll Rúnar

Það er rétt að þessi dans verður að mörgu leyti vandstiginn. Hver og einn hlýtur hins vegar að láta samvisku sína og dómgreind stýra sér og ég er sammála þér að það þurfum við að gera af yfirvegun hvert og eitt. En ég vil einnig taka undir upphafsorð þín um þann múr sem nú er rofinn og hefði mátt brotna fyrr, nefnilega að þjóðin fái milliliðalaust að úrskurða um mál sem henni liggja á hjarta í þjóðaratkvæðagreiðlu.
Ögmundur