Forsetinn vill að þjóðin blessi fjölmiðlalögin!

Sæll Ögmundur.
Nú sé mig tilneydda að leita til þín af því að ég er einfaldlega ekki nógu vitlaus til að skilja röksemdir forsetans, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hann varpaði fram í viðtalsþætti í sjónvarpinu í gærkvöld viðvíkjandi synjun sinni á staðfestingu fjölmiðlalaganna. Hann sagðist með gjörningi sínum hafa viljað leyfa þjóðinni að "blessa" þessi lög  líkt og gjörðist í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944. Hvaða merkingu leggur þú í þessi orð forsetans? Ég hélt satt að segja að hann hefði beitt synjunarvaldinu vegna þess að hann hefði talið lögin geta verið háskaleg lýðræðinu í landinu og þar með þjóðinni. En nú er sem sagt allt komið á hvolf hjá mér, og kannski forsetanum líka, í þessu flókna máli. Eða hvað? Var forsetinn eftir allt saman að blessa lögin með því að synja þeim undirskriftar svo að við getum tekið þátt í því með honum að veita þeim eina allsherjar blessun í þjóðaratkvæðagreiðslu? Nú er ég einna helst á þessari skoðun en veit annars ekki mitt rjúkandi ráð nema þá helst þetta: Ef ég skil forsetann rétt verður að hafa hraðann á og fylkja liði. Allir sem vettlingi geta valdið verða að láta hendur standa fram úr ermum til að tryggja að fjölmiðlalögin fái ekki mikið lakari viðtökur en þegar lýðveldismálið fór í þjóðaratkvæði í maí 1944. Þá lögðu leið sína á kjörstað 98,61% atkvæðisbærra manna. Með lýðveldisstofnun voru 95,04%, á móti voru 1,44%, auðir og ógildir seðlar voru 3,52%.
Og svona rétt í lokin og til að koma í veg fyrir misskilning: Þetta með vitleysu-stuðulinn hjá mér hefur ekkert með stuðulinn þinn að gera. Ég hef bara þá trú að þú þekkir e.t.v. betur en ég þá rökræðulist sem ráðamenn þjóðarinnar stunda þegar mikið liggur við.
Með góðri kveðju,
Þuríður Ófeigsdóttir

Sæl Þuríður.
Ég þakka þér bréfið en ekki treysti ég mér betur en þú þér til að túlka orð forsetans. Ætli fari ekki best á því að hann geri það sjálfur.
Kveðja, Ögmundur

Fréttabréf