Er Auður á leið til Bessastaða?

Svo lítið hefur farið fyrir forsetaframbjóðandanum Auði að ég hafði ekki hugmynd um framboð hennar fyrr en í morgun þegar ég renndi yfir skoðanakönnun Fréttablaðsins. Þar stimplar frú Auður sig inn með eftirminnilegum hætti og nýtur nú hvorki meira né minna en 20% fylgis, ef marka má niðurstöðuna. Er það með hreinum ólíkindum að svo gjörsamlega óþekktur frambjóðandi skuli nú sigla hraðbyri upp að sitjandi forseta í fylgiskönnunum. Já, það stefnir í magnþrungnar og spennandi kosningar á komandi laugardag því ljóst er að Auður getur orðið herra Ólafi skeinuhætt á lokasprettinum. Þá kemur góð útkoma Baldurs Ágústssonar einnig á óvart. Ástþór Magnússon á hins vegar enn á brattann að sækja en ánægjulegt er að sjá að hann hefur nú loksins rofið 1% múrinn.
En hver er þessi Auður, þessi ósýnilegi frambjóðandi sem skýtur nú Bessastaðavaldinu skelk í bringu? Þrátt fyrir mikið rót hefur mér ekki tekist að grafa upp neinar upplýsingar um hana. Ég bið því alla sem luma á einhverjum fróðleik um frú Auði að koma þeim á framfæri hið fyrsta og ekki væri verra að mynd fylgdi með. Það væri að mínu mati og margra annarra afskaplega neyðarlegt ef landsmenn þekktu ekki nýkjörinn forseta sinn í sjón ef svo skyldi nú fara að frú Auður bæri sigur úr býtum - en sú gæti niðurstaðan einmitt orðið.
Þjóðólfur

Fréttabréf