Fara í efni

Af hverju gleyma menn?

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, gat þess í fréttum í dag að þrír ártugir væru frá því hann var fyrst kosinn til að sitja á Alþingi. Það er rétt að óska Halldóri til hamingju með afmælið og ekkert er eðlilegra en utanríkisráðherra skuli muna vel eftir kosninganóttinni þegar hann datt inn á þing. Það er fullkomlega eðlilegt að atburðurinn hafi greipst í minni hins reynda þingmanns. Venjulega er það nefnilega þannig að átök, tímamót eða stórir atburðir verða hverjum og einum eftirminnilegastir. Þá fyrst byrja menn að gleyma þegar elli kerling er farin að vinna á þeim. Stundum veldur miskunarlaus óminnishegrinn gleymskunni af skiljanlegum ástæðum og stundum gleyma þeir menn sem eru heiðarlegir í grunninn vegna þess að þeir eru orðnir hluti af eða flæktir í óþægilegan lygavef sem venjulega er ofinn af öðrum. Stundum virðast menn hafa gleymt, en þegar grannt er skoðað kemur oft í ljós að menn eru þá að lesa upp forskriftir eða fara með röksemdir sem aðrir menn hafa búið til. Minnisleysi Halldórs Ásgrímssonar um synjunarvald forseta og umræður um það í eigin flokki eru ekki vegna þess að aldurinn setji svip á minni hans og ekki verður því trúað að óminnishegrinn hafi náð til hans og svipt hann minni. Líkur benda til að minnisleysi hans skýrist af því að hann er að reyna að styðja skoðun sem er ekki hans með rökum sem minnislausir stráklingar hafa sennilega kokkað ofan í hann. Það sem Halldór Ásgrímsson sagði í dag sagði aðstoðarmaður hans, moggadrengurinn, í Kastljósi í gær. Utanríkisráðherrann núverandi fór á sínum tíma fyrir hópi framsóknarþingmanna á Alþingi sem sat hjá þegar samningurinn um evrópska efnahagssvæðið var til umræðu. Sú afstaða kostaði mikil átök svo sem lesa má um í ævisögu Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, og þær miklu umræður sem fram fóru innan og á vettvangi flokksins ættu að vera Halldóri eftirminnilegar og eru það vafalaust. Það er hins vegar ekki víst að ungir menn á uppleið muni eftir því um hvað menn deildu þá eða hverjir lögðu til þyngstu rökin og þau sem mest mark var á takandi. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, segir í dag að enginn hafi látið sér til hugar koma að forseti notaði eða nýtt sér synjunarvaldið sem hann hefur samkvæmt stjórnarskránni. Þú rifjar upp Ögmundur áskorun tugþúsunda Íslendinga sem báðu Vigdísi Finnbogadóttur að synja EES lögunum staðfestingar. Það er líka rétt að rifja upp fyrir lesendum ogmundur.is, fyrir Halldóri Ásgrímssyni og sérstaklega fyrir þeim sem búa til rökstuðning fyrir hann í þessu máli og öðrum að vissan um málskotsrétt forseta lýðveldisins er snar þáttur í pólitískri hefð Framsóknarflokksins. Þekktur er rökstuðningur Stefáns Valgeirssonar, alþingismanns, um völd forseta og þjóðaratkvæðagreiðslu í bráðabirgðalagamálinu, sem Halldór Ásgrímsson þekkir vel sem þáverandi varaformaður Framsóknarflokksins. Fjölmargir kjósendur Halldórs Ásgrímssonar á Austurlandi litu á málskotsréttinn sem hluta af lifandi lýðræðishefð þjóðarinnar og kom þetta skýrt og greinilega fram á fundum sem Halldór sótti sjálfur á Austurlandi og í landshlutablöðum eystra í EES málinu. Röksemdirnar voru líka fram settar í dagblaðinu Tímanum, sem mig minnir að þá hafi verið undir ritstjórn Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingaráðherra. Hann man þetta vafalaust. Af framsóknarmönnum fyrri tíðar var Þórarinn Þórarinsson, fyrrverandi alþingismaður, ritstjóri Tímans og náinn ráðgjafi flestra forystumanna Framsóknarflokksins í áratugi, sá sem mesta og besta innsýn hafði í stjórnskipun landsins. Hann þekkti til dæmis stjórnarskrármálið betur en aðrir þálifandi árið 1992 enda ritstjóri Tímans og ráðgjafi flokksforystunnar þegar lýðsveldismálið var afgreitt á Alþingi. Jafnvel Halldór Ásgrímsson yrði að viðurkenna það þótt með því yrði hann að éta ofan í sig suma vitleysuna sem hann hefur látið frá sér fara undanfarið fyrir sína hönd og annarra. Þegar umræður um EES málið stóðu sem hæst steig Þórarinn Þórarinsson fram á ritvöllinn. Hann valdi sér auðvitað Tímann til að koma skoðun sinni á framfæri. Flokksmenn og fjéndur lögðu við hlustir þegar hinn aldni, þegar hinn vísi maður, tjáði sig um samtímann í ljósi sinnar miklu reynslu. Þórarinn Þórarinsson skrifaði grein sem bar heitið “Þjóðin er æðri Alþingi”. Í þeirri grein fjallar þessi fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar um lýðveldisatkvæðagreiðsluna 1944 og tillögur sem fyrir lágu um lýðveldisstofnunina. Síðan segir Þórarinn: “Meginefni þessara atkvæðagreiðslna var það að færa æðsta valdið inn í landið. Síðan hefur engin breyting verið gerð á þeirri skipan. Nú liggur hins vegar fyrir Alþingi frumvarp um róttæka breytingu á þessari skipan. Samkvæmt því á að færa umtalsverðan hluta æðsta valdsins úr landi, eða verulegan hluta löggjafarvaldsins og talsverðan hluta framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins. Hér er átt við frumvarpið um Evrópskt efnahagssvæði. Það er tvímælalaust stærsta og örlagaríkasta mál sem hefur legið fyrir Alþingi síðan 1944. Eins og nú horfir getur forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, staðið frammi fyrir þeim vanda innan fárra daga að ákveða hvort hún á að veita því endanlegt samþykki eða vísa því til þjóðarinnar. Þetta er tvímælalaust stærsta ákvörðun sem íslenskur þjóðhöfðingi hefur þurft að taka. En hvers vegna hefur forsetanum verið fært þetta vald? Það er vegna þess að höfundar stjórnarskrárinnar hafa talið að þegar mest á reyndi væri vald þjóðarinnar æðra en vald þingsins og þess vegna ætti forsetinn að hafa vald til þess að skjóta málum til hennar.” Halldór Ásgrímsson sagði í fréttum í dag um synjunarvald forseta, túlkun á stjórnarskránni og þjóðaratkvæðagreiðslu: “...það hefur enginn gert ráð fyrir því að það gæti komið til þessa, að mínu mati, ég er nú búinn að vera 30 ár í þinginu og ég hef aldrei heyrt það að menn reikni með því, fyrr en að núna þá tala menn um eins og þetta sé sjálfsagður hlutur.” Eigum við að trúa því að Halldór Ásgrímsson sem fór fyrir fylkingu þingmanna framsóknarmanna gegn sitjandi formanni í EES-málinu muni ekki eftir grein Þórarins Þórarinssonar frá desember 1992? Eigum við að trúa því að Halldór Ásgrímsson muni ekki eftir þessari grein mannsins sem var formaður þingflokks framsóknarmanna þegar utanríkisráðherra datt sjálfur inn á þing fyrir þrjátíu árum. Mannsins sem studdi Halldór þegar hann steig fyrstu skrefin á Alþingi? Eigum við að trúa því að hann muni ekki eftir röksemdum Stefáns Valgeirssonar í bráðabirgðalagamálinu á sínum tíma? Eigum við að trúa því að sá maður sem Framsóknarflokkurinn kaus til að halda fram arfleifð þeirra Jónasar, Hermanns, Eysteins, Ólafs, og  Steingríms þekki ekki þann þráð í sögu flokksins sem Þórarinn Þórarinsson spinnur í greininni sem hér er vitnað til. Er aðeins yfirborðið eftir af formanninum eftir öll 30 árin? Sé svo er ekki undarlegt að Halldór fari nú á mis við sögu og hefðir framsóknarmanna í 90 ár. Verra er ef þetta yfirborð er þess utan hreinn tilbúningur moggastrákanna. Jafn merkilegt og þessi lýsing af miðstjórnarfundi: Fundurinn var ekki neinn átakafundur, bræðralag, samstaða og stuðningur við Halldór Ásgrímsson formann Framsóknarflokksins var það sem lýsti fundinum best.” Eru þeir ekki að gera grín að Halldóri moggamennirnir?
Ólína