Fara í efni

Á 45 snúninga hraða...

Sæll Ögmundur.

3. maí 2003 birtist á blaðsíðu 3 í Morgunblaðinu kosningaauglýsing frá Sjálfstæðisflokknum. Stór mynd að foringjanum á ljósum rykfrakka. Það var eitthvað skrítið við bæði búk og bros. Brosið var undarlegt glott, ekki ólíkt brosi dóttur veitingakonunnar handan Rínar, og búkurinn orðinn eitthvað minni í hlutfalli við höfuðið en efni stóðu til. Þá kveiktum við dauðlegir. Þeir höfðu fótósjoppað hann auglýsingagreifarnir. Tekið passamynd með tvíræðu glotti og skellt henni í ljósan rykfrakka, sennilega frá Guðsteini, enda stutt til kosninga og mikið í húfi og ekki skot yfir markið að tjúna forsætis til eftir allar fegrunarmyndirnar af Halldóri í ljósbláu skyrtunni á flettiskiltum landsins. Og svo var í húfi titillinn fyrsti þingmaður reykvíkinga í suðri. Núna eru 33 snúninga plöturnar aftur farnar að snúast á 45 snúningum með stóru gati í miðjunni. Núna kipptu þeir líka fótósjoppaðri passamynd úr seinni hluta kosningabaráttunnar í fyrra og smelltu með kommenti frá foringjanum inn á síðu 16 í Morgunblaðinu nákvæmlega 13 mánuðum síðar. Ekki fréttamynd. Var það pólitíska deildin sem sá um myndskreytinguna? Frétt eða manípúlasjón? Eða barnsleg einlægni og óskin um að gera vel við sinn mann? Leiðari eða frétt? Nú rennur allt saman á Morgunblaðinu. Og Morgunblaðið sem talar nú í fréttum og leiðurum skrækum rómi, eins og 33 snúninga plata á 45 snúningum, dregur fram í skuggalegum leiðara dagsins að menn verði nú að velta fyrir sér og taka afstöðu til þess af hverju “allir einkareknir fjölmiðlar á Íslandi utan Morgunblaðsins hafa færst í hendur stóru viðskiptasamsteypnanna.” Svo gjörsamlega hefur Morgunblaðið tapað áttum í skrifum sínum að því verður helst líkt við texta mannsins sem skrifaði lokaritgerðina í lagadeildinni á Corolla ritvél með boxhönskum. Þyrftu nú ekki ritstjórar Morgunblaðsins og hinn betur gerði hluti eigendahópsins að velta fyrir sér hvort eitthvað samband kynni að vera milli þess flokkspólitíska kúrs sem Morgunblaðið tók fyrir þremur árum og velgengni Fréttablaðsins á blaðamarkaðnum? Hvort flokkspólitískur kúrs Morgunblaðsins kynni e.t.v. að eiga þátt í því ástandi sem upp er komið í íslenskum fjölmiðlaheimi. Ættum við ekki einmitt að taka umræðu um það í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna hvernig flokkspólitíkin leikur fjölmiðlana? Samband Framsóknarflokksins, starfsmanna þess flokks og Styrmis Gunnarssonar, samband Davíðs og Styrmis, samband Össurar og Styrmis, samband Styrmis og Steingríms. Já hvernig væri að stjórnmálamenn opnuðu sig og segðu frá fundum eða símtölum við ritstjóra Morgunblaðsins til að varpa ljósi á samofið hagsmunakerfi stjórnmálanna og blaðsins sem oft hefur verið eins og fimmta hjól undir vagni fjórflokkakerfisins? Væru þau samtöl ekki hluti af hinni upplýstu opnu umræðu um fjölmiðlana? Er ekki best að leggja alla myndina á borðið, án þess að fara með hana í fótósjoppuna, og smella 45 snúninga plötu á fóninn. Og það er best að byrja á þér Ögmundur. Hefur þú hitt ritstjóra Morgunblaðsins og rætt við hann pólitík? Hefur ritstjórinn hringt í þig að fyrra bragði til að ræða við þig pólitík? Finnst þér ritstjóri Morgunblaðsins nota sér stöðu sína í flokkspólitískum tilgangi? Og að lokum þetta: Hvernig fyndist þér ef Gunnar Smári Egilsson yrði aðalritstjóri Morgunblaðsins fyrir utan ritstýringuna sem hann sinnir nú á Fréttablaðinu og DV, eins og Davíð Oddsson orðaði það með óbeinum hætti í enn einu drottningarviðtalinu í kvöld?
Ólína

Heil og sæl Ólína.
Ég skynja mikla undiröldu í þessu bréfi þínu og mörgu þar hreyft. Ég ætla hins vegar að halda mig á yfirborðinu og svara þeim spurningum sem að mér er beint og eru þar fljótandi ofaná. Ég hef hitt ritstjóra Morgunblaðsins, bæði Styrmi Gunnarsson og aðra ritstjóra í tímans rás. Þar hafa stjórnmál vissulega borið á góma sem og reyndar önnur mál. Aldrei hefur ritstjóri Morgunblaðsins hringt í mig til þess að ræða tiltekið pólitískt mál og hvað Styrmi Gunnarsson varðar hafa okkar samskipti aðallega legið á málasviði ótengt stjórnmálum og hafa þau verið ánægjuleg.

Hvort Morgunblaðið sé notað í flokkspólitískum tilgangi vil ég segja þetta: Morgunblaðið hefur á að skipa upp til hópa mjög áreiðanlegum blaðamönnum sem eru faglegir í vinnubrögðum. Í seinni tíð hefur mér þótt Mogginn leggja mikið upp úr því að vera mjög breiður miðill sem höfði til þjóðarinnar allrar. Maður sér það í föstum greinaflokki þar sem blaðamenn skrifa út frá eigin brjósti að á Morgunblaðinu er að finna fólk með fjölbreyttar skoðanir. Þá verð ég líka að viðurkenna, talað frá mínum bæjardyrum og persónulegu reynslu, að ekki hef ég orðið var við að blaðið mismunaði á pólitískum nótum hvað snertir birtingu aðsendra stjórnmálaskrifa t.d. fyrir kosningar. Hins vegar veit ég að einstaklingar eiga ekki inngengt í blaðið og önnur blöð einnig – með öðrum orðum, eru útskúfaðir frá blaðaskrifum almennt - sem er alvarlegur hlutur.

Þrátt fyrir allt þetta leikur ekki vafi á því í mínum huga að Morgunblaðið er rammpólitískt blað þegar verulega á reynir og mjög áhrifaríkt sem slíkt. Vegna stærðar sinnar og alls yfirbragðs, sem hefur  verið þróað í þá átt að búa til valdastofnun, hefur Morgunblaðið skoðanamyndandi áhrif í íslensku þjóðfélagi. Ef til vill vegna þess hve yfirbragðið er orðið breitt og opið, verða hin pólitísku inngrip áhrifaríkari. Pólitíkin getur komið fram í skilgreiningu á því hvað telst vera fréttnæmt á ögurstundu, þ.e. uppslætti og að sjálfsögðu er blaðið alltaf pólitískt í leiðarskrifum, Reykjavíkurbréfi og öðru ámóta. Þegar allt dæmið er gert upp er Morgunblaðið fyrst og fremst hliðhollt Sjálfstæðisflokknum. Pólitísk skoðanamyndun Morgunblaðsins væri varasöm ef aðeins eitt sterkt dagblað væri í landinu og þess vegna einn ritstjóri, hver sem hann væri. Lykilatriði er að til staðar séu fleiri öflugir fjölmiðlar og við slíkar aðstæður óttast ég ekki að blöðin taki afstöðu  til mála í pólitískum skrifum ef það er gert á opinn og heiðarlegan hátt. Geldir, skoðanalausir fjölmiðlar eru hundleiðinlegir fyrir utan það að þeir þjóna yfirleitt ríkjandi valdhöfum hverju sinni.  Allt snýst þetta á endanum um fjölbreytni, heiðarleika og opin vinnubrögð.
Kveðja,
Ögmundur