Fara í efni

Valdsþjóðfélag

Sæll Ögmundur.
Fólskuleg árás á New York árið 2001, og innrásin í Írak breyttu ekki aðeins framtíð okkar. Við neyðumst líka til að endurskoða fortíðina og skilgreina strauma, stefnur, flokka og þjóðfélög upp á nýtt. Það er til dæmis alveg ljóst að við þurfum að skilgreina ríkisvaldið og fjölmiðlana upp á nýtt. Mér finnst að úr lýðræðissamfélögunum á Vesturlöndum, sem Ísland tilheyrir, sé að vaxa fram ný tegund samfélags – valdssamfélagið. Það má til einföldunar skipta þessu valdssamfélagi í fimm valdþætti hið minnsta. Allir stjórnast meira og minna af sömu hagsmunum til lengri tíma litið. Hagmunirnir virðast felast í því að viðhalda því kapitalíska samfélagi sem byggist á verðmætasköpun þar sem launin eru lægst í heiminum. Í þessu samfélagi leitast handhafar valdþáttanna við að  styrkja stöðu sína hver fyrir sig og gera aðra þætti háða sér, eða ná þeim undir sig. Þegar hins vegar valdssamfélaginu er ógnað byrja valdþættirnir að slá í takt eins og hjörtu tveggja gangandi elskenda við Reykjavíkurtjörn og verjast sem ein heild ógninni. Þessir valdsþættir eru hið efnahagslega vald, hið pólitíska vald, lagasetningarvaldið, dómsvaldið og fjölmiðlavaldið. Ísland er í raun ágætt dæmi um þessa breytingu vegna þess að hér eru hlutir sæmilega gegnsæir og forsætisráðherra landsins, 2. þingmaður Reykvíkinga og umboðsmaður 32% kjósenda í landinu, er holdgervingur þróunarinnar. Hann hefur á starfstíma sínum í gamla fangelsinu við Lækjartorg breytt lagasetningavaldinu þannig að Alþingi er nú eins og hver önnur afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Þótt forsætisráðherra hafi innan við þriðjung þjóðarinnar á bak við sig hefur honum tekist að styrkja mjög pólitískt vald sitt vegna klókinda sinna og veikleika samstarfsmanna sinna í ríkisstjórnum. Hann hefur með skipulögðum hætti gert fjölmiðlana háða hinu pólitíska valdi. Fyrst með því að afnema þá styrki sem veittir voru til fjölmiðla, í öðru lagi með því að yfirtaka og gera ríkisútvarpið svo háð sér og hinu pólitíska valdi að annað eins þekkist ekki í nágrannaríkjum okkar. Í þriðja lagi náði hann tökum á Morgunblaðinu fyrir eins og þremur árum með einhverjum aðferðum sem almenningur skilur ekki og veit ekki um, og nú, í fjórða lagi, hyggst hann brjóta á bak aftur fjölmiðlafyrirtækið Norðurljós. Áður hefur hann ráðist með skömmum og formælingum á hæstarétt landsins sem dæmdi þannig að raskaði ró hans. Eini valdþátturinn sem hið pólitíska vald hefur misst úr höndum sér er hið efnahagslega vald vegna þess að það stóð eitthvað illa í bóli hjá þeim sem erfa átt silfurborðbúnað þjóðarinnar. Þess vegna hefur pólitíska valdið ekki þau tök sem það vildi helst hafa. Þar fyrir utan hafa vaxið upp fyrirtæki og auk þess vaxið hinu pólitíska valdi svo í augum að nú hugsa menn sér að gera flokkspólitíska atlögu að þessu valdi með því að beita lagasetningarvaldinu og ítökunum sem þeir þykjast hafa í bankakerfinu. Og í þessum málum veit hægri höndin hvað sú vinstri gerir. Landsins bankar og Útvarpsréttarnefnd. Þar situr fyrir á fleti góðvinur hins pólitíska valds. Ætli þessi beiting hins pólitíska valds sé ekki fyrst og fremst gerð í því augnamiði að veita Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og félögum fjárhagslegt högg? Aumast er að sjá framsóknarráðherrana bukka sig og beygja án þess nokkurn tíma að gera sér grein fyrir neinum hlut fyrr en um seinan. Kletturinn orðinn að ómerkilegri sandhrúgu sem hverfur um leið og öldunni skolar uppá ströndina. Hvar ætlar nú Vinstri hreyfingin grænt framboð að stilla sér upp Ögmundur?
Kveðja, Ólína
Sæl Ólína. Þakka þér stórgóðar hugleiðngar. Það þarf ekki að hafa mörg orð af minni hálfu. Ég er þér sammála um flest ef ekki allt.
Ögmundur