Fara í efni

FVÚ – RÚV?

Sæll Ögmundur.
Þú ert mikill ríkisútvarpsmaður en nú vil ég biðja þig að velta vel fyrir þér nokkrum atriðum sem okkur óbreyttum hlustendum blöskrar. Þegar Ríkisútvarpið virtist ætla að taka sig saman í andlitinu og setja á flot fréttaskýringaþátt þá fengu menn fyrst forsætisráðherra landsins til að skýra stjórnmálaástandið. Þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak í olíuleit þá fengu menn núverandi dómsmálaráðherra landsins til að skýra út fyrir þjóðinni ástæður innrásarinnar og nauðsyn baráttunnar fyrir lýðræði í heiminum. Þegar lífið var svo murkað úr þúsund manns í helgarferð bandarísku herforingjanna til borgar í Írak þá fengu menn aðstoðarmann menntamálaráðherra, fyrrverandi Morgunblaðsmann og fyrrum virkan ungliðadreng úr Heimdalli til að skýra út fyrir þjóðinni fjöldamorðin í Faluja og blaðamannafund Georgs Bush. Vinnubrögðin eru fráleit. Ekki vegna þess sem forsætisráðherrann sagði um stjórnmálaástandið, dómsmálaráðherrann um innrásina og aðstoðarmaðurinn um fjöldamorðin heldur vegna þess að ábyrgðarmenn fréttaskýringaþáttarins sigla undir fölsku flaggi. Þeim er að mínum dómi óheimilt að nota stofnunina til þess að hygla vinum sínum, eða þóknast þeirri valdastétt sem þeir e.t.v. hugsa sér að þjóna síðar. Þess vegna finnst mér réttmætt að velta fyrir mér og vil að þú gerir það líka og svarir hugleiðingum mínum. Eru þeir menn lítilla sanda sem stjórna RÚV ekki búnar að breyta stofnuninni í FÚV (framkvæmdavaldsútvarp)? Og hvernig stendur á að menn skipa ekki nefnd til að kortleggja samband framkvæmdavaldsins og stofnunarinnar í Efstaleiti með sama hætti og menn þykjast nú hafa kortlagt eignarhald á íslenskum fjölmiðlum? Forsætisráðherra þarf ekki að skipa nýju nefndina eins og þá fyrri. Vinstri grænir, Samfylkingin og Frjáslyndir gætu gert það í sameiningu og skilað með blaðamannafundi fyrir þinglok. Það yrði áreiðanlega miklu skemmtilegri skýrsla en sú sem aðstoðarmaður menntamálaráðherra er að lofa mönnum að lesa á.
Ólína

Sæl Ólína.
Þú biður um svar. Eigum við ekki að láta hverjum og einum um að svara í eigin hjarta og íhuga hugmyndir þínar, sem eru skýrar eins og endranær.
Kveðja, Ögmundur.

Ólína