Um ómeðvitaða pólitíkusa og vímuefnavarnir

Sæll meistari Ögmundur
Á ágætum vef þínum skrifar þú um málefnalegt innlegg Þorleifs Gunnlaugssonar í umræðu um vímuefnameðferð.
"En að lokum þetta að sinni: Þeir aðilar sem eru faglegir og vinna markvisst og hafa auk þess sannað sig, þurfa ekki að óttast rækilega úttekt og umræðu um þennan geira heilbrigðisþjónustunnar eins og lagt er til í umræddri þingsályktunartillögu."
Þetta er ekki rétt Ögmundur. Það eru einmitt þeir sem eru faglegir og vinna markvisst sem óttast "rækilega úttekt og umræðu" pólitíkusa sem hlaupa með mál inn á Alþingi Íslendinga, alls ómeðvitaðir um staðreyndir máls og góða siði. 
Í umræðu um þetta mál á Alþingi sagðir þú: "Talsvert hefur verið skrifað um þessi efni að undanförnu. Ég vísa t.d. í ágætar greinar Gríms Atlasonar í blöðum." Í þessum greinum Gríms Atlasonar er ráðist á SÁÁ með dylgjum, fáfræði og afbökun á sannleikanum. Samt sem áður er SÁÁ sá meðferðaraðili sem sannarlega vinnur faglega og markvisst og hefur þannig byggt upp sitt starf og trúverðugleika á síðustu þremur áratugum. Mér sýnist þú ennþá vera tilbúinn að fórna SÁÁ fyrir Grím Atlason á altari rækilegrar úttektar hinna sannleiksleitandi sjálfvita.
Bestu kveðjur,
Arnþór Jónsson

Heill og sæll Arnþór.
Það er sklijanlegt að menn láti frá sér heyra þegar þeim finnst farið með rangt mál eða vegið að  mikilvægri starfsemi. Varðandi skrif Gríms Atlasonar þá fer ég ekki ofan af því að hann hefur bent á ýmsa þætti sem mér hafa þótt mjög athyglisverðir og umhugsunarverðir og orðið til að hrissta upp í mér. Það breytir ekki því að ég ber mikla virðingu fyrir SÁÁ og vil þeirri starfsemi sem samtökin reka allt hið besta. Ég er reyndar á þeirri skoðun mjög eindregið að sá tími sé löngu liðinn að SÁÁ eigi að þurfa reiða sig á söfnunarfé og man ég ekki betur en ég hafi sagt það við umræðuna um þingmál okkar Þúríðar Backman. Umfræða er til góðs og röksemdir Þorleifs Gunlaugssonar verða mér nú til umhugsunar. Þingmenn sem kunna að hafa verið "ómeðvitaðir" um ýmsar hliðar þessara mála verða þá væntanlega með tímanum meðvitaðri.
Með kveðju,
Ögmundur

Sæll aftur
Umræða um þennan geira heilbrigðisþjónustunnar hefur lengi verið á lágu plani og er það ennþá. Umræðunni hafa stjórnað aðilar sem hafa kosið að vekja athygli á sjálfum sér með því að ráðast að SÁÁ og því starfi sem þar er unnið. SÁÁ hefur aldrei tekið þátt í þessari umræðu eða gert neina tilraun til að bera hönd fyrir höfuð sér. Það er örugglega meðvituð ákvörðun. Í stað þess að munnhöggvast við þetta fólk hefur SÁÁ árum saman gefið út ítarlega ársskýrslu með staðreyndum og tölulegum upplýsingum úr sjúklingabókhaldi. Í 26 ár hefur SÁÁ safnað þessum upplýsingum í gagnagrunn sem er ómetanlegur fjársjóður í margslungnum rannsóknum sem hægt verður að framkvæma þegar þingmenn og aðrir hafa áttað sig á hve rækilega SÁÁ hefur ræktað sinn garð á meðan sjálfvitar hafa kosið að básúna opinberlega um eigið ágæti og opinberir aðilar ausið fjármunum í gagnslitlar tímabundnar aðgerðir og ýmis þjóðarátök sem engum árangri hefur skilað fyrir fólkið í landinu en hugsanlega "réttum" atkvæðum í kjörkassa. Umræða er því aðeins til góðs að eitthvað skynsamlegt komi út úr henni. Þess vegna hefur SÁÁ kosið að vinna vinnuna sína í hljóði og rækta garðinn sinn. Bestu kveðjur,
Arnþór

Blessaður Arnþór.
Það er rétt hjá þér að þá aðeins eru umræður til góðs að eitthvað skynsamlegt komi út úr þeim. Það getur hins vegar tekið tíma, ekki síst ef menn þurfa að byggja upp þekkingu og hugsanlega vinna á fordómum og vanahugsun. Það er grundvallaratriði að menn séu tilbúnir að taka rökum jafnvel þótt þau gangi þvert á viðtekin viðhorf. Það er ásetningur okkar flestra grunar mig, jafnvel á hverjum morgni að reyna þetta án þess að það gangi alltaf upp! En í þessu samhengi lít ég á það sem styrkleikamerki að geta tekið gagnrýni, jafnvel harðri, án þess að úthrópa, þann sem hefur gagnrýnina  í frammi. Hér vísa ég í hin hörðu, stundum óvægnu viðbrögð við skrifum Gríms Atlasonar. Hann hefur öðrum fremur vakið þá umræðu sem fer fram þessa dagana. Ég held að hún verði til góðs. Alla vega er ég búinn að læra talsvert af henni og á eftir að gera enn. Það er ég staðráðinn í að gera og mun ég halda áfram að leita fanga eins víða og ég mögulega get og að sjálfsögðu hjá þeim sem gerst þekkja til málanna.
Kveðja,
Ögmundur

Sæll enn Ögmundur
Þú skrifar:

"Hér vísa ég í hin hörðu, stundum óvægnu viðbrögð við skrifum Gríms Atlasonar. Hann hefur öðrum fremur vakið þá umræðu sem fer fram þessa dagana."

Svona fullyrðing þingmanns nær náttúrulega ekki nokkurri átt Ögmundur. Ástæða mín fyrir þessum skrifum eru ekki dylgjur Gríms Atlasonar um einhverja misnotkun veiks fólks á aðstöðunni upp á Vogi. Viðbrögð mín eru þau sömu og hjá Þorleifi Gunnlaugssyni. Ekki er hægt að horfa upp á það aðgerðarlaus að þingmenn fari óundirbúnir og faglega ómeðvitaðir með þingsályktunartillögur inn á Alþingi. Um það snúast óvægin viðbrögð og hörð gagnrýni. Það er léttvægt fundið hjá þér að nota einhvern mann út í bæ sem skjöld til að reyna bera blak af sjálfum þér. Grímur er ábyggilega að reyna láta gott af sér leiða og veit ekki betur. Ég geri meiri kröfur til  þín.
Bestu kveðjur,
Arnþór
Komdur sæll Arnþór.
Ég held að sjónarmiðin séu nokkurn veginn komin fram og skalt þú hafa síðasta orðið - að sinni.
Með bestu kveðju,
Ögmundur

   

Fréttabréf