Fara í efni

Framsókn og tjáningarfrelsið

Ég var alveg hjartanlega sammála áherslum þínum í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins sl. laugardag þar sem þú gladdist yfir því ef samruninn á fjölmiðlamarkaði yrði til að styrkja fjárhagsgrundvöll markaðs- ljósvakamiðlanna. Það er hins vegar hárrétt eins og þú bentir á að til að koma í veg fyrir algera einokun á fjölmiðlamarkaði sem væri raunveruleg hætta, þá yrði að tryggja til frambúðar öflugt Ríkisútvarp í eigu þjóðarinnar.
En ástæða þess að ég skrifa er þó framlag Hjálmars Árnasonar þingflokksformanns Framsóknar í sama fréttatíma. Það var í sjálfu sér ágætt. Hann sagði meginmáli skipta að geirnegla tjáningarfrelsi fréttamanna. Þetta er rétt hjá Hjálmari. En hvað með þingmenn? Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með því hvernig þingmenn Frmsóknarflokksins sérstaklega, hafa  margsinnis verið þvingaðir til að fylgja flokkslínu, augljóslega þvert á sannfæringu og samvisku. Þetta hefur verið átakanlegast gagnvart yngstu þingmönnunum. Um þetta gæti ég tekið mörg dæmi, sum nýleg. Ég trúi ekki öðru en fólk bíði varanlegan skaða á sálinni með svona meðferð. Á endanum verða menn þó eflaust komnir með skráp og þá væntanlega orðnir útskrifaðir til að gegna "ábyrgðarstöðum" fyrir Framsókn.
En Hjálmar, lengi lifi virðingin fyrir einstaklingnum og tjáningarfrelsinu – líka á þingi.
Með kveðju,
Hafsteinn Orri