Fara í efni

Lífeyrissjóðirnir stofni banka

Miklar hækkanir hafa verið á hlutabréfum í Kauphöll Íslands frá áramótum.
Sú hækkun hefur verið leidd af Pharmaco, Bakkavör og KB banka. Mikil hækkun KB banka er rakin að hluta til Bakkavarar þar á milli eru hagsmunatengsl náin.
Verðbréfasalar hafa ekki á reiðum höndum skýringu á þessari þróun. Við áramót töldu sérfræðingar sem tjáðu sig að gengi  hlutabréfa væri almennt of hátt.
Pharmaco væri stórlega ofmetið og slæmt væri að hafa gengið svona stjarnfræðilegt þegar og ef félagið ætlaði að fá skráningu í útlöndum. Það hefur komið fram ítrekað á síðustu misserum að kaupskapur með hlutabréf á Íslandi lyti sérstökum lögmálum vegna fábreyttrar fyrirtækjaflóru og fólksfægðar. Þetta er mikill fákeppnismarkaður þar sem lífeyrissjóðirnir eru alltof stórir og virka bara sem  hækja örfárra ákafamenn sem falið er vald sem engum er hollt . Víst er að skylda lífeyrissjóðanna að fjárfesta hlutfall tekna sinna á íslenskum hlutabréfamarkaði er að verða þjóðarmeinsemd því að í skjóli þess þrífst mikil spilling sem birtist í ofmetnum fyrirtækjum á mjög vanþróuðum hlutabréfamarkaði. Glaðst hefur verið yfir góðri ávöxtun lífeyrissjóðanna  hér innanlands. Skýring þessarar miklu ávöxtunar er því miður valdabarátta en hefur sáralítið að gera með raunverulegan vöxt og velgengni þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga.
Lærdómsríkt er að fylgjast með viðbrögðum við sölu Brims. Þar er verið að víxla með kvótaeign landsmanna. Í reiði sinni vísa KEA og bæjaryfirvöld á Akureyri til siðferðis og félagslegra raka þegar þau mótmæla sölu á Útgerðarfélagi Akureyringa og telja sig hafa gert tilboð á grundvelli rekstrarforsendna. Seljandinn Eimskipafélag Íslands sem nánast er deild í Landsbanka Íslands selur að sögn hæstbjóðanda. Gefur upp söluverð en segir ekkert um skilmála sölunnar. Jú, kveðst lána mikið. Síðan fréttist í morgun að Samson ehf. hafi keypt stóran hlut í Eimskip. Mig langar að spyrja Fjármálaeftirlitið og Kauphöll Ísland, er farið að lögum? Eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga langt. Hvað er með upplýsingaskyldu gagnvart minni hluthöfum bæði Eimskip og Landsbanka Íslands.
Í því andrúmi sem skapast hefur er nokkuð víst að lífeyrissjóðirnir í landinu verða að stofna banka og verða leiðandi á fjármálamarkaði. Það er eina leiðin til að brjóta niður þann spillingarvef sem þjóðin er flækt í, siðvæðingar er þörf.
Bjarni