Fara í efni

Takk fyrir frumkvæði í SPRON málinu

Heill og sæll.
Ég horfði á ykkur Pétur Blöndal takast á um SPRON málið á Stöð tvö í gærkvöldi. Þetta samtal hefur verið talsvert í umræðu manna á meðal í dag. Þarna varstu að ræða við mann sem sjálfur hefur hagsmuna að gæta því eftir því sem ég best veit er hann stofnfjáreigandi og kemur til með að hagnast um verulegar fjárupphæðir ef þessi sala verður að veruleika. Nú vill svo til að ég þekki svolítið til sparisjóðanna í landinu og veit mætavel að stofnfjárhlutir voru aldrei hugsaðir sem fjáruppspretta fyrir eigendurna. Gert var ráð fyrir að þeir gætu fengið hlut sinn endurgreiddan uppreiknaðan samkvæmt vísitölu þannig að þeir töpuðu ekki á framlagi sínu. Nú stendur hins vegar til að menn geri sér stofnfjárhluti að féþúfu. Og þá er komið að tilefni þessa bréfkorns. Þótt þú sýndir Pétri Blöndal fulla tillitssemi þá gegnir ekki sama máli um hann. Því þegar þú settir fram þín rök um að salan á þeim forsendum sem nú er ráðgerð, stríddi gegn þeirri grundbvallarhugsun sem sparisjóðirnir hvíla á, þá þá leyfði hann sér að segja að þú gætir trútt um talað enda á móti öllu. Hann, sem er ásamt nokkrum félögum sínum í SPRON að hafa þaðan stórar illa fengnar fjárfúlgur, leyfir sér að tala um neikvæðni af þinni hálfu! Ég segi, þakka skyldi að þú varst ekki jákvæður gagnvart þessu ráðslagi! Í því sambandi vil ég reyndar þakka þér og ykkur í VG fyrir að taka frumkvæði í andófinu gegn þessum óheiðarleika, mér liggur við að tala um þjófnað í þessu sambandi - því auðvitað eru þarna á ferðinni óprúttnir menn sem eru að hafa fé af almenningi.
Kveðja ,
Hafsteinn Orri