Fara í efni

Mótsagnir hjá Samfylkingu?

Kæri Ögmundur
Stjórnmálaályktun landsfundur Samfylkingarinnar 2003 er áhugaverð og skemmtileg lesning fyrir áhugamenn um stjórnmál. Hún rímar nefnilega svo illa við raunveruleikann. Tvö dæmi nefni ég til rökstuðnings:

 

  1. Í ályktuninni stendur:

,,Landsfundur Samfylkingarinnar álítur að náttúra Íslands sé fjársjóður sem ber að vernda og nýta skynsamlega, til heilla fyrir komandi kynslóðir." Er þetta ekki sami flokkurinn og studdi hryðjuverk á hálendi Íslands með byggingu Kárahnjúkavirkjunar? Var það ekki Össur sem stærði sig af þjónkun sinni við ríkisstjórnarflokkana í þessu máli og síðan ,,efnið" hans, Ingibjörg Sólrún, sem hjálpaði því í gegn um borgarstjórn?

 

  1. Aðeins neðar í ályktuninni stendur undir kafla um lýðræðismál:

,,Sömuleiðis ber að heimila að tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu..." Samfylkingunni hefur verið tíðrætt um mikilvægi þess að bera mál undir þjóðina með þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar þegar til hennar hefur verið leitað um slíkt að þá hefur snúist öndverð á móti því. Lagt var til á Alþingi á sínum tíma að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun af þingmönnum VG en Samfylkingin lagðist gegn því og stóð fylktu liði með ríkisstjórnarflokkunum í því að kæfa niður viðleitni VG að láta málið koma til kasta þjóðarinnar.

 

Það hefði því verið nærtækara fyrir Samfylkinguna að álykta um að hún styddi ríkisstyrkt umhverfisspjöll á hálendi Íslands ef það glitti í peninga fyrir viðvikið. Sem og að Samfylkingin styddi ekki þjóðaratkvæðagreiðslu ef það þjónaði ekki hennar hagsmunum. Skammast þau sín fyrir málstað sinn í þessum efnum og reyna að breiða yfir hann með fallegu orðalagi í landsfundarályktun? Að lokum vil ég þakka þingmönnum VG fyrir einarða baráttu sína gegn skammsýni og fyrir náttúrunni.
Kær kveðja

Jónína