Fara í efni

Útvarp Reykjavík

Útvarp Reykjavík, útvarp Reykjavík, klukkan er sjö, nú verða sagðar fréttir. Fréttirnar les Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Í fréttum er þetta helst: Hæstvirtur forsætisráðherra, Davíð Oddsson, lagði af stað til Bandaríkjanna í nótt til viðræðna við herra George Bush um áframhaldandi þátttöku Íslendinga í hjálparstarfinu í Írak sem hófst með því að hrekja ómennið og skrattakollinn Saddam Hussein frá völdum. Fram kom í samtali Björns Bjarnasonar fréttamanns við forsætisráðherra fyrir skömmu að vel færi um hann í flugvélinni, flugfreyjurnar væru afskaplega notalegar og allar með heilbrigðar skoðanir.
Þrjú innbrot voru framin í Reykjavík í nótt og eru þau öll upplýst. Að sögn lögreglunnar voru þarna á ferð góðkunningjar hennar af vinstri kantinum sem seint ætlar að lærast að virða eignarréttinn. Brotamennin voru færð til fangageymslunnar við Hverfisgötu og reyna nú vonandi að sofa úr sér ómerkilegheitin.
Fagurt veður er um allt land og heiðskírt. Fréttaritari útvarpsins á Egilsstöðum sagði veðrið á Héraði minna sig á stöðu efnahagsmálanna, mikil kyrrð væri í lofti og alger heiðskíra. Samkvæmt hitamælinum í Valhöll var 10 stiga hiti í höfuðborginni klukkan sex í morgun og má það þykja gott ef tekið er mið af stöðu mála við stjórn borgarinnar.
Knattspyrnumaðurinn og sjálfstæðismaðurinn knái, Valur Eilífsson, skoraði tvö mörk fyrir lið sitt Independant í bandarísku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
Fleira er ekki í fréttum. Farið varlega fram að næsta fréttatíma og passið ykkur á kommunum! Fyrsta lagið okkar eftir fréttir er perlan hans Gunna Þórðar við ljóð Davíðs Oddssonar, Við Reykjavíkurtjörn.
Þjóðólfur