Fara í efni

Spegill, spegill herm þú mér...

Ögmundur. Hugsaðu þér einangraðan mann umkringdan grunnsigldum jámönnum. Hugsaðu þér svo að hann, miðpúnkturinn í þröngum fimm manna hópi, standi með spegil í hendi og fari um leið með gömlu þuluna: Spegill, spegill herm þú mér, hver kommi er í húsi hér? Og svo er alveg sama hvað hann lítur snöggt í Spegilinn, hann sér alltaf sína eigin spegilmynd, en myndin er ekki hann. Spegilmyndin er Stalín.
Hann endurtekur þuluna en sama sagan endurtekur sig. Spegillinn sýnir bara Stalín. Undrunarsvipur breiðist yfir andlit Elínar, Boga, Bjarna, Dóru og Hannesar, nýja liðsmannsins, og svo spyrja þau öll í kór: Er Krúsi komminn? Þau fara, þora ekki að taka séns á Krúsa lengur, og eftir stendur hann einn og yfirgefinn, reynir og reynir, en alltaf birtist ógnvaldurinn í Speglinum. Maðurinn er Markús Örn, einn af léttdrengjum íhaldsins, sem fer fyrir einni elstu, helstu og áhrifamestu menningarstofnun þjóðarinnar, ótrúlegt en satt. Stofnun sem á sínu sviði hafði lengi sama hlutverk og sömu stöðu og Morgunblaðið hafði. Stofnun sem, ásamt Morgunblaðinu, opnaði almenningi sýn til fleiri átta en aðrir gerðu í áratugi og átti þannig þátt í að skapa kynslóðum forsendur til þess með víðsýni að vera þátttakendur í samstarfi þjóða.
Þröng og sjúkleg flokkspólitísk sjónarmið eru líka að eyðileggja þessa menningarstofnun. Þröngsýni verður dyggð, hollusta við valdið gæfa og undirlægjuhátturinn gjörvileiki. Hið óeðlilega breytist í hvunndagsleg samskipti fólks. Það er þess vegna Krúsi, sem Stalín kommi kemur í spegillinn og ekki þú, litli vin. Ögmundur Jónasson hve lengi ætlar þú að verja þetta lið?
Ólína  

Heil og sæl Ólína.
Ekki verður beinlínis sagt að þú farir mildilega um stjórnendur RÚV og mig spyrðu hversu lengi ég ætli að verja "þetta lið". Það er vissulega rétt að ég er mikill stuðningsamaður Ríkisútvarpsins, lít á það sem akkeri í íslensku upplýsingasamfélagi og í menningarlegu tilliti hefur það mikla þýðingu. Í Ríkisútvarpinu er margt mjög vel gert. Um þetta held ég að við hljótum að vera sammála og ef svo er þá ber okkur að standa vörð um þessa starfsemi. Ef hins vegar valdi er misbeitt eða farið er með stofnunina inn á vafasamar brautir þá ber okkur skylda að tala um það og gagnrýna það hástöfum. Það geri ég hiklaust og mun halda því áfram. Ríkisútvarpið eigum við öll og okkur kemur við hvernig það er rekið og hvernig því er stjórnað.
Kveðja,
Ögmundur