Fara í efni

Vefurinn oft áhugaverðari en fjölmiðlar

það er margt áhugavert á vefnum og  margt óáhugavert í helstu fjölmiðlum.  Mig langar tilað vekja athygli á vefslóð frá fyrrum hermönnum Bandaríkjahers og hefur fjöldi annarra hermanna skrifað undir plaggið (sjá til vinstri á vefslóðinni sem ég sendi með þessu bréfkorni). Þeirra sjónarmið eru sérstaklega áhrifarík finnst mér þar sem þeir hafa tilheyrt heilaþvegnasta hópi Bandaríkjanna, hernum.  http://www.calltoconscience.net/
með kveðju
Þórdís

Þakka þér kærlega sendinguna Þórdís. Ég las bréf hermannanna og fannst það sérlega áhugavert. Þetta minnir okkur á að eitt er núverandi Bandaríkjastjórn og annað sjálf þjóðin. Hermennirnir minna á þau óhæfuverk sem þeim var fyrirskipað að framkvæma í Víetnam og víðar. Þeir minnast á Flóastríðið fyrra gegn Írak, þegar þeim hafi verið skipað að drepa úr "öruggri fjarlægð". Þess vegna hafi verið lögð áhersla á loftárásir. Menn tali um stríð, en það sé annað nafn á drápi og morðum. Þeir segja að þeim hafi verið innrætt að hlýða og verja öryggi fósturjarðarinnar. En á öllum mönnum hvíli hins vegar siðferðilegar kvaðir og þær lúti ekki að hermennsku heldur velferð mannkynsins, hvernig við komum fram við meðbræður okkar og systur. Þessi boðskapur bréfsins finnst mér vera góður, ég er þér sammála um það. Mig langar til að vekja athygli á því, að þegar farið er inn á vefslóðna má finna eins konar lifandi mæli sem sýnir okkur útgjöld bandaríska ríkisins til hermála í dollurum talið frá áramótum. Lítum á þennan mæli og hugleiðum að á hverjum einasta degi deyja 35 þúsund börn úr hungri. Ef þessum peningum væri varið til hjálpar bágstöddu fólki þá liti heimurinn öðruvísi út.
http://www.veteransforpeace.org/

Kveðja,Ögmundur