Fara í efni

"Upplýsingaráðherra" opnar sig

Sæll Ögmundur.
Sá sem Dónald Rúmsfeldt ætlaði að gera að nýjum “upplýsingaráðherra” Íraks, James Woolsey, fyrrverandi forstjóri leyniþjónustu miðstjórnarinnar bandarísku (Central Intelligence Agency) viðrar hugmyndir sínar um hernaðarsigurinn í Írak í fyrradag m.a. í breska blaðinu Guardian. Hann gerir því skóna að Íraksstríðið hafi verið meira en rétt og slétt barátta gegn hryðjuverkum. Markmiðið með stríðinu er nú allt í einu að koma lýðræðisskipulagi á laggirnar í hluta af arabaheiminum – í þeim hluta múslimska heimsins sem ógnar þeim frjálsa menningarheimi sem Bandaríkjamenn hafa barist fyrir alla 20. öldina; barist fyrir í fyrri heimstyrjöldinni og þeirri seinni, í kalda stríðinu og í þriðju heimsstyrjöldinni, og James Woolsey býður menn í Guardian velkomna í fjórðu heimsstyrjöldina! Ætli hann sé ekki að beina orðum sínum til Davíðs og  Halldórs? Þeir lesa þetta og vonandi Woolsey í Guardian. Sjálf er ég ennþá hálf leið yfir að Morgunblaðið skuli í fréttaöflun sinni og miðlun frétta af hörmungunum í Írak enn vera í því dvergslíki sem það brá sér í fyrir þremur vikum. Sundurskotin líkin, brunnin börnin og bilaðir stríðsæsingamenn eru jafn mikill hluti bandaríska tæknisigursins og kórónan höfðuðs kóngsins. Sú staðreynd hefur að ýmsu leyti farið framhjá Morgunblaðinu. Annar svona sigur og ég er dauðans matur er haft eftir Pyrrosi. Gæti ekki verið Ögmundur að í sigrinum fælist upphaf nýrrar ógnaraldar, nýs vígbúnaðarkapphlaups og nýrra bandalaga?
Ólína 

 
Heil og sæl Ólína.
Ég er sammála þér að með árasinni á Írak er ekki verið að binda enda á atburðarás heldur hefja hana.
Kveðja,Ögmundur