Spurt um kosningaáherslur

Er mikið að pæla í að kjósa ykkur, en ég hef svolítið verið að pæla í þessari fyrningarleið og hef mínar efasemdir um hana að því leyti að þetta verði of mikið ríkis- og sveitarfélagabatterí og hvort að kunningja- og hagsmunatengsl eigi ekki eftir að ráða miklu líka ef sú leið verður farin. Er líka dauðhræddur við það ef Frjálslyndi flokkurinn fær sjávarútvegsráðuneytið af því að mínu mati fara þeir alltof hratt í breytingarnar og mikil hætta verður á að ofveiði. Ég vil einnig spyrja ykkur hver stefna ykkar er í geðheilbrigðismálum og forvörnum við geðsjúkdómum. Einnig hvaða stefnu þið hafið í tengslum við rekstur lífeyrissjóða, þ.e.a.s. hvort að þið viljið að launþegar geti kosið í stjórnir í lífeyrissjóða og valið í hvaða lífeyrissjóða þeir greiða. Að lokum vil ég spyrja um stefnu ykkar í íþróttum barna, hvort að besta forvörnin væri ekki að hafa íþróttaþáttöku fyrir þau fría upp að vissu marki.
Kveðja, Hinrik Jón Stefánsson.

 

Komdu sæll Hinrik Jón.

Ég held að ekki þurfi að óttast skrifræði í tengslum við fiskveiðistjórnunarkerfið sem við leggjum til. Samkvæmt tillögum okkar færi þriðjungur hins fyrnda kvóta einfaldlega á markað á landsvísu. Þriðjungur yrði byggðatengdur. Viðkomandi byggðarlagi yrði í sjálfsvald sett hvernig heimildunum yrði ráðstafað. Þetta mætti gera á uppboðsmarkaði en einnig með handstýringu samkvæmt fyrirfram ákveðnum reglum, sem tryggðu jafnræði með aðilum. Ég er hins vegar sammála þér að handstýring yrði vandmeðfarin. Síðasti þriðjungurinn af fyrndum kvóta kæmi til með að hvíla áfram hjá útgerðinni gegn leigugjaldi, sem þó væri heldur lægra en verð sem myndaðist á markaði. Ég sé þetta fyrir mér sem aðlögun fyrir fyrirtæki sem eru mjög skuldsett vegna kvótakaupa. Fyrning kvótans yrði að gerast á markvissan en öruggan hátt. Við leggjum allt upp úr því að af fyrnigunni verði en viljum forðast hvers kyns yfirboð um breytingu á milli kerfa í einu heljarstökki. Reyndar held ég að slík nálgun yrði til að drepa málinu á dreif.

Varðandi forvarnir á sviði geðheilbrigðismála þá er óhætt að segja að við leggjum mikið upp úr því að vel sé að þeim staðið. Það sem ég vil nefna sérstaklega í þessu stutta svari er að nauðsynlegt er að okkar mati að samhæfa þá aðstoð sem veitt er. Í því augnamiði leggjum við til að komið verði á fót sérstöku stuðningsteymi í hverju heilsugæsluumdæmi fyrir fólk með félagslega eða geðræða röskun. Með þessu móti yrði haldið betur utan um hvern og einn.

Varðandi lífeyrissjóðina þá er ég því fylgjandi að í stjórnir þeirra sé kosið í samtökum launafólks. Á árinu 1996 kom fram frumvarp í þinginu sem hefði stórlega skert lífeyrisréttindin en vegna baráttu verkalýðshreyfingarinnar tókst að hrinda atlögunni. Ég held að sjóðunum sé best borgið í höndum þeirra sem semja um kaup og kjör. Hins vegar er innan þess ramma vissulega hægt að auka og bæta lýðræðislega aðkomu sjóðfélaga.

Varðandi íþróttaiðkun þá er ég þér algerlega sammála enda leggjum við til að íþrótta- og æskulýðsfélögum verði veittur stuðningur til að sinna börnum á grunnskólaaldri. Þarna fer fram uppbyggilegt starf sem í ofanálag hefur forvarnargildi auk þess sem ótækt er að efnahagur ráði því hvort börn geti sinnt íþróttum. 
Kveðja, Ögmundur

Fréttabréf