Fara í efni

Samfylkingarprófessorarnir í HÍ og RÚV

Blessaður Ögmundur.
Loksins, loksins var á þetta bent!!!! Ég þakka þér fyrir greinina á vefsíðunni um hina pólitísku prófessora sem kallaðir eru í fjölmiðla alltaf fyrir kosningar undir því yfirskini að þeir séu að varpa fræðilegu ljósi á kosningabaráttuna. Um mjög fáa einstaklinga er að ræða en þeir eru allir því marki brenndir að vera Samfylkingarmenn með stóru essi. Þessir menn hika ekki við að nota tækifærið, sem þeim þannig hlotnast, til að tala máli Samfylkingarinnar, sem væri í góðu lagi af minni hálfu, ef þeir skreyttu sig ekki jafnframt með stofnun sinni, því alltaf láta þeir kenna sig við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands þegar þeir eru í þessum pólitísku erindagjörðum. Ég hef oft verið gáttaður á Ríkisútvarpinu að bjóða okkur upp á kredduhugsun Ólafs Harðarsonar og félaga fyrir kosningar og reyndar einnig í kjölfar þeirra, til að skilgreina úrslitin. Mér finnst að grein þín á heimasíðunni eigi heima á síðum dagblaðanna. Ég er stuðningsmaður Háskóla Íslands en mér mislíkar að stofnunin skuli misnotuð á þennan hátt. Þetta er ekki gott fyrir Háskóla Íslands. Þetta rýrir trúverðugleika hans og það er slæmt að vita til þess að uppvaxandi kynslóð stjórnmálafræðinga njóti leiðsagnar manna sem hugsa eins þröngpólitískt og þessir menn greinlega gera. 
Þorvarður