Fara í efni

Það besta sem Háskóli Íslands býður upp á

Tveir félagsfræðidoktorar skrá sig fyrir handriti sjónvarpsþátta um þjóðmálaþróun á Íslandi á öldinni sem liðin er. Sá þeirra sem reyndari er og þroskaðri er dr. Ólafur Þ. Harðarson. Í þætti fyrir nokkru sagði dr. Ólafur litasjónvarpssöguna þekktu af Páli Péturssyni, félagsmálaráðherra. Þessi saga er fræg í  endursögn kosningasmala íhaldsins, enda nutu þeir þess á kostnað Páls, að segja bara hálfan sannleikann. Í þætti 2. febrúar sagði dr. Ólafur söguna um verkfall blaðamanna og fréttamanna á Útvarpi og Sjónvarpi haustið 1984. Þar sagði hann líka bara hálfan sannleikann og láðist t.d. að segja frá því grundvallaratriði, að það var meirihluti Útvarpsráðs undir forsæti Sjálfstæðismanna sem reyndi að koma í veg fyrir að fréttir væru sagðar í verkfallinu og þurftu verkfallsmenn að beita sér af alefli til að hafa sitt fram – sem þeir gerðu. Um þessar tilraunir Sjálfstæðisflokksins til að veikja Ríkisútvarpið í verkfallinu kom ekkert fram. Ekkert heldur um bannið sem Útvarpsráð Sjálfstæðisflokksins setti á auglýsingar BSRB um kjör láglaunafólks. Um allt þetta var þagað.  Dr. Ólafur gaf þjóðinni m.ö.o. ranga mynd. Sama var uppá teningnum þegar hann sagði frá stóru bankasameiningu dr. Jóns Sigurðssonar, bankamálaráðherra Alþýðuflokksins. Þar segir handritshöfundurinn til dæmis að ríkið hafi lagt mikið fé inn í Útvegsbankann. Það er umdeilanlegt í góðu meðallagi. Um það verður hins vegar ekki deilt að Iðnaðar- og Verzlunarbankinn voru í umtalsverðum erfiðleikum og áttu sér enga framtíð, nema með því að ríkið tæki þá í gjörgæslu eða hlutaðist til um að skapa þeim framtíð með beinum og óbeinum styrkjum. Það var svo gert með því að sameina þá Útvegsbanka Íslands h.f., sem stóð prýðilega, og Alþýðubankanum, sem sömuleiðis stóð vel eins og lesa má um í ársreikningum beggja banka frá þeim tíma. Íslandsbankinn, sem þá varð til, fékk ýmislegt í meðgjöf frá ríkinu. Viðskipti opinberra stofana og fyrirtækja sem Útvegsbankinn hafði áður, viðskiptavildin sem Útvegsbankinn hafði erlendis og var talin dýrmæt (og hvorki Iðnaðarbanki né Verzlunarbankinn höfðu í sama mæli), og svo gífurlega meðgjöf í húseignum, búnaði og réttindum starfsmanna, sem ríkið aflétti af Útvegsbankanum og lagði með því inn í Íslandsbanka hinn nýja. Þessi fídús var svo endurtekinn fyrir skemmstu þegar Íslandsbanki var styrktur umfram aðra banka með því að leggja þar inn Fiskveiðasjóð. Sögufölsun myndi einhver vilja kalla sjónvarpstextann um sameininguna 1989 í þessu ljósi. Dr. Ólafur upplýsir okkur einnig um smotterí eins og að sveitungi hans, Matthías Á. Mathiesen, hafi "auðveldað landsmönnum aðgang að greiðslukortum", en segir ekki frá kosningaveislunni sem haldin var á Broadway til að fagna flugstöðvarbyggingunni, sem vígð var í aðdraganda kosninga 1987. Ég skora á Bjarna Guðmundsson, framkvæmdastjóra Sjónvarpsins, sem á sínum tíma samdi um sýningu þáttanna, að birta handritstextann á heimasíðu Ríkisútvarpsins áhorfendum til frekari upplýsingar, eða réttara sagt umhugsunar. Síkt væri liður í þeirri almannaþjónustu sem framkvæmdastjórinn stendur fyrir í öllu starfi sínu fyrir RÚV og væri þar fyrir utan fyrirtækinu og Háskólanum til framdráttar þar sem rannsóknarniðurstöður doktoranna hljóta að vera það besta sem sá skóli getur boðið upp á í samtímasögunni, ella hefðu höfundarnir ekki verið fengnir til verksins.

 Ólína