Fara í efni

„Nú verður lesið úr ársreikningum fyrirtækja“

Sæll Ögmundur. Gagnrýnislaus meðferð fjármálafregna í fjölmiðlum er farin að fara í taugarnar. Mér finnst að í þjónkunarskyni við viðskiptahagsmuni þeirra sem sýsla með fé annarra hafi nokkrir fjölmiðlar tekið uppá því að birta svokallaðar fjármálafréttir svo ótt og títt að enginn fréttatími virðist fullburða öðru vísi en ein eða tvær fjármálafréttir séu uppistaða eða meginstoð fréttatímans. Hefur þessi ósiður færst í vöxt hjá ríkisfjölmiðlunum, því miður, einkum fréttastofu útvarps. Það er mikill misskilningur hjá þeim sem halda um stjórnvölinn á þeim fréttamiðlum sem í hlut eiga að halda, að almenningur hafi sérstakan áhuga eða áhyggjur af gengi bréfa í hinu eða þessu fyrirtækinu held ég. Sá hluti almennings sem  hefur áhuga á upplýsingum af því tagi sem í þessu sambandi eru færðar í fréttaform sækir sér upplýsingarnar yfirleitt beint til umsýslumanna fjárins, t.d. á netinu, eða fær upplýsingarnar til sín beint með tölvupósti, eða póstlistaáskrift. Flestir bankar og fjármálastofnanir hafa komið sér upp „fréttaþjónustu“ á netinu þar sem sagðar eru fréttir af fyrirtækjunum sjálfum, fréttirnar eru skrifaðar af starfsmönnum fyrirtækjanna sjálfra út frá hagsmunum fyrirtækjanna sjálfra. Til umhugsunar er að margar af þessum fréttum virðast rata beint inn í fréttatíma tiltekinna fjölmiðla oft lítt styttar og breyttar. Má halda því fram með nokkrum rétti finnst mér að fyrirtækin hafi að þessu leyti ekki aðeins tekið að sér fréttaskrifin heldur líka ritstjórn sumra fréttamiðla. Er það aum fréttamennska. Og í raun og veru eins konar tilbrigði við kostun frétta. Kostunin felst þá í að fyrirtækin skrifa og fylla það sem fréttamiðillinn hefði ella þurft að gera, og greiða fyrir. Þekkt er sú heimilislega setning í útvarpinu sem hljóðar svo: Nú verður lesið úr dagbók. Mín skoðun er sú að það fari vel á því að framan við fjármála„fréttirnar“ verði skeytt þessum inngangi: Nú verður lesið úr ársreikningum fyrirtækja. Hvað finnst þér annars um þessa fjarritstýringu Ögmundur sem gamall fréttahaukur?
Ólína

Ágæta Ólína.
Þakka þér fyrir góðar hugleiðingar Ólína. Sannast sagna er ég farinn að hlakka til að fá frá þér bréfin því mér þykja þau mjög merkileg. Í stuttu máli er ég þér hjartanlega sammála. Það er langt síðan að mér fannst undarlegt að horfa og hlýða á þuli Ríkissjónavarps og Útvarps segja okkur, að því er mér fannst (kannski sem betur fer) með sljótt og skilningsvana augnaráð, hvert væri gengi hlutabréfa þann daginn eða hinn.  Stjórnendur fréttastofa Ríkisútvarpsins virtust hins vegar hafa áhuga á því að verða framsækinn hluti af tíðarandanum og þess vegna var reynt að éta upp allt sem þótti bitastætt á verðbréfamörkuðum. Og til marks um hve langt var gengið um tíma má minna á ungmenni sem kölluð voru inn í framlengda fréttaþætti til að gefa okkur vísbendingu um hvar við ættum helst að fjárfesta þegar markaðurinn yrði opnaður með upprisu morgunsólarinnar. Á tímabili var þetta mjög visnsæl umræða í Kastljósþáttum Ríkissjónvarpsins, gott ef þetta var ekki fastur liður um skeið. Sól verðbréfamarkaðarins er nokkuð tekin að hníga nú en spurning er hversu langt hún þarf að ganga til viðar áður en menn gera sér grein fyrir því að geislar Wall Street sólar eru engin ávísun á lífshamingju.
Með kveðju, Ögmundur