Fara í efni

Einn hnípir eftir þegar annar deyr

Þeir slepptu Þjóðmenningarhúsinu. Stjórnarflokkarnir voru í ráðherrabústaðnum í gær, Davíð og Halldór. Þeir voru að kynna átak í atvinnumálum. Miðstýrt, hugmyndasnautt og strípað. Vegir hér og vegir þar - fyrir sex milljarða, sex þúsund milljónir króna. Og svo kenndu þeir ASÍ um allt saman! Ætli samtökin hafi valið þetta fremur en hækkun skattleysismarkanna? Fréttamenn ættu að spyrja Grétar eða Gylfa.

Tveir erum vér leitendur og lifendur hans,
grímubúnir guðir í gervi konu og manns;
báðir þrá hið Eina; bágt eiga þeir.
Báðir eru blekkíng. Tvisvar tveir eru tveir.
Einn hnípir eftir þegar annar deyr.

(Halldór Laxness, Rhodymenia Palmata, apíl 1926)

Báðir eru blekkíng datt mér í hug þegar ég sá þá hlið við hlið í sjónvarpinu, tryllekúnstnerinn sem hefur misst bæði hatt og kanínu frá sér, og heiðarlega klettinn Halldór, sem rembist nú við að halda flokknum sínum á floti. Grímubúnir guðir.
En svo var það menningin. Menningarhúsin sem Bjössi Bjarna var búinn að selja fyrir síðustu kosningar. Rétt að dusta rykið af þeirri hugmynd aftur. Á útsölu með hana. Tvö hús á Akureyri og í Vestmannaeyjum fyrir hálfan milljarð. Stafkirkja hér og menning þar. Ætli grímubúnir guðir gangi líka í fylkingu til þeirrar vígslu, eins og þegar menn fylktu lið í Eyjum?
Hvað ætli þeim finnist um tillögurnar konunum sem af hugmyndaauðgi og snerpu stóðu fyrir átakinu Auður í krafti kvenna?
Einn hnípir eftir þegar annar deyr. Örlög ríkisstjórnarinnar er ekki hægt að orða betur en nóbelsskáldið gerði.

Þú rekald strandar, gleymda brautargóðs,
ó glaði jesútöfradrykkjarálfur,
hífopp minn bróðir, hoffmannsvín og lóðs,
vor höll er brunnin, þú ert týndur sjálfur.

Ólína