Fara í efni

Björgunarsveit Samfylkingarinnar komin á sporið

Að undanförnu hefur farið fram mikil leit að fátæku fólki hér á landi. Forsætisráðherra Samfylkingarinnar er kominn á sporið eins og hann kunngjörði á flokksráðstefnunni í Borgarnesi um helgina. Hann er búinn að finna tvo einstaklinga sem verða að líkindum holdgervingar helsta baráttumáls flokksins í kosningunum í vor en það verður jú lífskjaraleg samjöfnum á breiðum grunni eins og hugmyndafræðingar flokksins hafa orðað það. 

 
Einstaklingarnir tveir sem tilvonandi forsætisráðherra hefur fundið eru Jón Ásgeir Jóhannesson á Baugseyri og Jón Ólafsson frá Norðurljósadal. Þeir hafa ekki einungis búið við kröpp kjör heldur hefur Davíð Oddsson einnig lagt þá í stíft einelti. Í tengslum við þetta rifjast upp skilgreining eins helsta hugmyndafræðings Samfylkingarinnar á eðli Davíðs en hann kallaði það skítlegt. Er sú greining komin beint úr flokkunarkerfi félaga Stalíns og hljóta vinstri grænir að geta tekið heils hugar undir hana. Ég ætla bara rétt að vona, Ögmundur, að þú og þinn flokkur takið höndum saman við sósíalistana og marxistana í Samfylkingunni. Einhvers staðar verður jú að byrja baráttuna gegn fátæktinni. 

 
Og það er ekki bara nístandi fátækt þessara tveggja Jóna sem snertir mig djúpt. Það særir mína réttlætiskennd holsári hvernig stjórnvöld hafa elt þessa einstaklinga á röndum. Davíð Oddsson hefur skopast að fátækt þeirra, hann hefur sent lögregluna á þá, skattrannsóknarstjóra, heilbrigðiseftirlitið og barnaverndarnefnd, Skipulagsstofnun og Örnefnastofnun og er þá bara fátt eitt nefnt. Að lyktum minni ég á slagorðið okkar gamla sem er enn í fullu gildi: Öreigar allra landa sameinist! Það á við um Jón og Jón og líka mig. Við megum hvorki gleyma okkar minnstu bræðrum né heldur spörfuglunum. Það boðar Samfylkingin og ég skil ekki af hverju vinstri grænir ættu að skorast undan þegar neyðin og réttlætið eru á aðra síðuna. 

Með kærri kveðju, Jón frá Bisnesi.